Birgja sig upp af helstu nauðsynjum

Irma hefur valdið mikilli eyðileggingu á Karíbahafinu.
Irma hefur valdið mikilli eyðileggingu á Karíbahafinu. AFP

„Staðan er þannig að allir eru að gera sig klára. Birgja sig upp af vatni, þurrvörum, rafhlöðum og öðrum nauðsynjum til að geta lifað hjálparlaust í viku.“ Þetta segir Pétur Már Sigurðsson í samtali við mbl.is en Pétur býr í Orlando í Flórída.

Yfirvöld á Flórída hafa gefið út tilskipun til fólks á suðurhluta Flórídaskagans um að yfirgefa svæðið en búist er við því að áhrifa fellibylsins Irmu muni gæta um allt fylkið. Um 20 milljónir búa í Flórída en búist er við því að fellibylurinn nái strönd í ríkinu á sunnudag.

Pétur segir að það sé miðað við að fólk safni öllu sem það geti til að komast af í viku án rafmagns og vatns. „Fólk hefur miklar áhyggjur. Við fengum fellibylinn Charlie yfir okkur árið 2004 en hann olli gríðarlegu tjóni þó hann væri ekki næstum því jafn kraftmikill og Irma.“

Pétur Már Sigurðsson.
Pétur Már Sigurðsson.

Þegar Pétur er spurður að því hvort að hann ætli að yfirgefa Orlando spyr hann á móti hvert hann eigi að fara. Hann bendir á að þeir sem búi nálægt strandlengjunni verði að koma sér í burtu.

„Við gætum horft upp á þriggja til fjögurra metra háa flóðöldu áður en stormurinn gengur yfir. Landið er kannski ekki nema hálfum metra hærra en þegar það er stórstraumsflóð og svo ofan á þetta kemur svona há alda, þá fara hús í kaf. Allt fólk sem á þessum svæðum verður að koma sér í burtu.

Irma er nú flokkaður sem fjórða stigs fellibylur og hefur í dag gengið yfir hafsvæði norður af Kúbu og stefnir á Flórída.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert