Enn eitt reiðarslagið fyrir Trump

AFP

Niðurstaða alríkisdómstóls í Kaliforníu í gær er enn eitt reiðarslagið fyrir ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta en það er niðurstaða dómstólsins að ekki megi reka alla flóttamenn úr landi. 

Ríkisstjórn Bandaríkjanna kynnti í janúar með litlum fyrirvara bann á komum fólks til landsins frá ákveðnum ríkjum. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd þar sem talið var að um mismunum eftir trúarskoðunum væri að ræða en Trump sagði nauðsynlegt að setja bannið til þess að verjast hryðjuverkamönnum.

Áfrýjunardómstóllinn í San Francisco staðfesti í gær niðurstöðu dómstóls á Hawaii, að hugtakið„náinn ættingi“ sé skilgreint of þröngt í ferðabanni Bandaríkjaforseta. Í úrskurðinum kemur meðal annars fram að afar, ömmur, barnabörn og fleiri ættingjar ættu einnig að falla undir hugtakið, ólíkt því sem ríkisstjórn Trumps hafði gefið út.

Þetta getur greitt götu 24 þúsund flóttamanna sem hafa þegar fengið samþykkta hælisumsókn í landinu.

Ferðabannið beinist gegn íbúum Írans, Líbýu, Sýrlands, Sómalíu, Súdan og Jemen þar sem meirihluti íbúa er múslímar. Bannið hefur í för með sér að einstaklingar sem ekki eiga „nána fjölskyldumeðlimi“ í Bandaríkjunum eða eiga viðskiptahagsmuna að gæta geta átt erfitt með að komast inn í landið.

Niðurstaða hæstaréttar í júlí var sú að stjórnvöldum væri heimilt að framfylgja banninu, nema í þeim tilvikum þegar um væri að ræða einstaklinga sem hefðu sannarlega lögmæt tengsl við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert