Rottugengi réðst á fatlaða stúlku

Rotturnar bitu stúlkuna yfir 200 sinnum. Mynd úr safni.
Rotturnar bitu stúlkuna yfir 200 sinnum. Mynd úr safni. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Frönsk 14 ára stúlka er alvarlega slösuð eftir að hún varð fyrir árás rottugengis á meðan hún svaf.

Stúlkan, sem er lömuð fyrir neðan mitti, var sofandi í herbergi sínu í leiguíbúð fjölskyldunnar þegar rotturnar lögðu til atlögu. Fjölskyldan er búsett í í borginni Roubaix í norðurhluta Frakklands. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstarfsmönnum hlaut stúlkan 45 sár í andliti, 150 á handleggjum og 30 á fótleggjum. BBC greinir frá þessu.

Faðir stúlkunnar hyggst kæra leigusalann fyrir meinta vanrækslu. Segir faðirinn að lóðin umhverfis leiguíbúðina sé illa hirt og að rusl flæði upp úr ruslatunnum í nágrenninu sem hefði laðað rotturnar að.

Faðirinn segir jafnframt að allt hafi verið í himna lagi þegar fjölskyldan gekk til svefns kvöldið áður. Þrír aðrir fjölskyldumeðlimir búa í íbúðinni. Þegar faðirinn kom að dóttur sinni morguninn eftir blasti hins vegar við honum ófögur sjón.

„Ég sá blóð streyma úr eyrum hennar, ég var dauðhræddur um að blætt hefði inn á heila,“ segir faðirinn í samtali við svæðisblaðið Courrier-Picard.

Stúlkan missti framan af nokkrum fingrum sem skurðlæknum tókst ekki að lagfæra.

Fjölskyldan hefur nú verið flutt í annað húsnæði og hefur franska lögreglan málið til rannsóknar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert