Vera í EES versti kosturinn

Breski ráðherrann David Davis.
Breski ráðherrann David Davis. AFP

Bretland verður ekki áfram innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eftir að landið segir skilið við Evrópusambandið. Þetta áréttaði breski ráðherrann David Davis, sem heldur utan um útgöngu Breta úr sambandinu, í umræðum breska þinginu í gær þar sem rætt var um lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að undirbúa útgönguna.

Samtals er 31 ríki aðili að EES-samningnum, öll 28 ríki Evrópusambandsins og þrjú af fjórum aðildarríkjum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Ísland, Noregur og Liechtenstein. Sviss, fjórða EFTA-ríkið, hafnaði aðild að EES í þjóðaratkvæði árið 1992 og samdi í kjölfarið um hliðstæð tengsl við Evrópusambandið í gegnum tvíhliða samninga.

Frétt mbl.is: Vilja fríverslun í stað EES-samningsins

Haft er eftir Davis á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að ríkisstjórn Bretlands hefði skoðað þann möguleika að vera áfram innan EES í gegnum EFTA tímabundið eftir útgönguna til þess að gefa breskum fyrirtækjum tækifæri til þess að aðlagast breyttum aðstæðum og eyða óvissu vegna hennar en sá möguleiki hefði verið tekinn af borðinu.

Sannleikurinn væri einfaldlega sá, sagði Davis, að aðild að EES þýddi að Bretland yrði áfram að fara eftir löggjöf Evrópusambandsins og heimila frjálsa för fólks til landsins frá ríkjum sambandsins. Hægt væri að setja einhverjar hömlur í þeim efnum en þær hefðu ekki skilað miklum árangri til þessa. „Á margan hátt er þetta versti kosturinn.“

Davis sagði að breska ríkisstjórnin vildi þess í stað semja um aðlögunartímabil sem miðaðist við það að halda í sem mest af því mikilvægasta sem fylgdi veru í Evrópusambandinu. Talað hefur verið um að slík tímabil gæti náð yfir að hámarki tvö ár frá því að Bretar segja formlega skilið við sambandið sem til stendur að verði í lok mars 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert