Engin fljúgandi trampólín

Fólk flýr undan Irmu í Flórída.
Fólk flýr undan Irmu í Flórída. AFP

„Ég var að rúlla á milli Íslendinga á svæðinu. Maður vill athuga hvernig fólk hefur það. Það létu allir vel af sér þó þeir hafi haft áhyggjur af þessu,“ segir Pét­ur Már Sig­urðsson sem býr í Or­lando í Flórída. Hann var nýkominn inn þegar mbl.is náði tali af honum. Hann segir talsvert marga hafa verið á ferli enda enn ekki orðið mjög hvasst. „Ég sá að minnsta kosti engin fjúkandi trampólín,“ segir Pétur. 

Fellibylurinn Irma er væntanleg til Orlando á næstunni. Núna er aðeins byrjað að hvessa en Irma er þegar byrjuð að berja á Miami og Suður-Flórída, að sögn Péturs. Hann segir Íslendinga taka viðvörunum alvarlega enda vita þeir að náttúruöflin geta verið óblíð og því vissara að vera varkár.

Húsið stendur þetta af sér

 Talsvert er af fólki í nágrenninu sem ætlar ekki að fara heldur dvelja á heimili sínu í skjóli eins og Pétur og konan hans ætla að gera.  Við erum í góðu húsi og reiknum með að það þoli þetta en ég veit ekki með garðhýsið,“ segir Pétur. Leirflísar eru á þakinu og fyrir vikið er það þungt og meiri líkur en minni að það eigi eftir að standa af sér veðrið. „Þeir sem eiga hús með eldra þaki mega búast við tjóni,” segir Pétur. 

Fellibylurinn Irma hefur misst talverðan kraft eftir að hún fór yfir Kúbu og nú þriðja stigs fellibylur. Pétur segir að það sé ekki endilega gott því það þýði að hún gangi ekki eins hratt yfir og því meiri líkur á að hún valdi enn meiri eyðileggingu.   

Pétur er búinn að birgja sig upp af allskyns nauðsynjavöru. Hann býst við að rafmang verði af skornum skammti og lítur hýru auga til auka rafstöðvar sem hann á og getur notað fyrir ísskápinn, ljós, sjónvarp og kaffikönnuna.  

Pétur Már Sigurðsson.
Pétur Már Sigurðsson.


 Þvær þvott og bíður 

„Núna erum við að þvo þvott því maður veit ekki hvenær það verður hægt næst. Svo bíðum við bara í rólegheitunum,“ segir Pétur. 

Rafveitan hefur tilkynnt að það muni taka níu daga að tengja öll heimili aftur. Fjölmargir rafvirkjar og línumenn úr öðrum fylkjum bíða eftir að Irma gangi yfir svo þeir geti hafist handa við að lagfæra það sem aflaga muni fara, að sögn Péturs. 

Margir flýja fellibylinn Irmu í Orlando.
Margir flýja fellibylinn Irmu í Orlando. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert