Örplast í sjávarsalti

Saltframleiðsla í Líbanon.
Saltframleiðsla í Líbanon. AFP

Samkvæmt nýrri rannsókn er plastagnir að finna í sjávarsalti frá Bandaríkjunum, Evrópu og Kína. Sérfræðingar óttast að örplast sé orðið að finna alls staðar í umhverfinu og sé farið að rata inn í fæðukeðjuna með saltneyslu.

mbl.is sagði frá því fyrr í vikunni að örplast hefði fundist í neysluvatni víða um heim.

Þeir sem stóðu að rannsókninni á plastögnum í salti telja meirihlutann koma frá míkrófíberefnum og einnota plastvörum á borð við vatnsflöskur. Um það bil 12,7 milljónir tonna af plasti enda í sjónum á ári hverju en það jafngildir einum ruslabíl á mínútu.

Sherri Mason, prófessor við State University of New York at Fredonia, fór fyrir rannsókninni þar sem vísindamenn leituðu að plastögnum í salti, bjór og drykkjarvatni, þar af í 12 salttegundunum sem seldar eru í bandarískum verslunum um allan heim.

Rannsakendurnir komust að því að Bandaríkjamenn eru mögulega að innbyrða allt að 660 plastagnir á ári, ef þeir fara eftir opinberum ráðleggingum um neyslu 2,3 gramma af salti á dag. Líklegar er þó að þeir innbyrði enn meira plast, þar sem 90% Bandaríkjamanna neyta of mikils salts.

Áhrif örplastsins á heilsu manna eru ókunn, m.a. vegna þess að erfitt hefur reynst að finna viðmiðunarhóp sem hefur ekki komist í tæri við plastagnir.

Samkvæmt vísindamönnum við Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health og Arizona State University hafa greinanlegar agnir plastefnisins bisphenol A fundist í 95% fullorðinna í Bandaríkjunum.

Í ágúst sl. komust spænskir rannsakendur að þeirri niðurstöðu að örplast væri nú að finna í öllum sjávarafurðum og að þróunin væri óafturkræf. Þeir rannsökuðu m.a. 21 tegund borðsalts og fundu plast í þeim öllum.

Algengasta plastefnið reyndist polyethylene terephthalate; efnið sem er notað til að búa til plastflöskur.

Þá fundu vísindamenn frá Frakklandi, Bretlandi og Malasíu örplast í 16 af 17 tegundum salts frá átta löndum nú í vor.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Plastmagnið sem fer í sjóinn á ári hverju jafngildir því …
Plastmagnið sem fer í sjóinn á ári hverju jafngildir því að sturtað sé úr einum ruslabíl á mínútu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert