„Skólabókadæmi um þjóðernishreinsanir“

Íbúar Bangladess hjálpa hér Rohingja-múslimum að komast frá borði báts …
Íbúar Bangladess hjálpa hér Rohingja-múslimum að komast frá borði báts sem þeir flúðu á frá Búrma. AFP

Aðgerðir stjórnvalda í Búrma gegn Rohingja-múslimum eru „skólabókadæmi um þjóðernishreinsanir“ að sögn Zeid Raad Al Hussein mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hvatti Zeid yfirvöld í Búrma til að binda endi á hernaðaraðgerðir sínar í Rakhine fylki. Rúmlega 300.000 Rohingjar hafa flúið yfir til Bangladess eftir að til átaka kom í Rakine-héraði í síðasta mánuði.

Þá hefur Dalai Lama biðlað til Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma, að hún finni friðsamlega lausn á deilunni.

Búrmíski herinn segist vera að bregðast við árásum uppreisnarmanna Rohingja og neitar því alfarið að almennir borgarar verði fyrir árásum þeirra. Átökin hófust þegar uppreisnarmenn Rohingja réðust á lögreglustöð í norðurhluta Rakhine og myrtu 12 öryggisverði.

Þeir Rohingjar sem hafa flúið frá Búrma eftir að átökin hófust, segja herinn hafa brugðist harkalega við meðal annars með því að kveikja í þorpum og ráðast á almenna borgara til að hrekja þá á brott.

Barn Rohingja-múslima sefur eftir að komast yfir landamærin til Bangladess. …
Barn Rohingja-múslima sefur eftir að komast yfir landamærin til Bangladess. Um 300.000 manns hafa flúið frá Búrma til Bangladess undanfarið. AFP

Drepnir án dóms og laga

Rak­hine-ríki í vest­ur­hluta Búrma er eitt fá­tæk­asta svæði Búrma og á landa­mæri að Bangla­dess. Þar hef­ur ólga milli múslima og búdd­ista verið viðvar­andi árum sam­an og þar eru Rohingj­ar neydd­ir til að haf­ast við. Þeir hafa ekki ferðaf­relsi og borg­ara­leg rétt­indi þeirra eru að öðru leyti einnig skert.

Sagði Zeid hörku aðgerða hersins ekki vera í samræmi við ástand mála. „Við höfum fengið fjölda fregna og ljósmyndir úr gervihnöttum sem sýna öryggissveitir og uppreisnarsveitir brenna þorp Rohingj­a og standa fyrir drápum án dóms og laga, meðal annars með því að skjóta á almenna borgara þar sem þeir flýja,“ sagði hann.

„Ég hvet stjórnina til að binda endi á þessa grimmilegu hernaðaraðgjörð og axla ábyrgð á öllum þeim brotum sem hafa átt sér stað og snúa þannig við alvarlegri og útbreiddri mismunun í garð  Rohingja.“

BBC segja hjálparstofnanir nú telja um 313.000 Rohingja hafa flúið til Bangladess og að þeir þurfi á mikilli aðstoð að halda, þar sem hjálparstarf sé nú af skornum skammti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert