Cruz dreifir klámi á Twitter

Færslan sem birtist á aðgangi Ted Cruz, öldungardeildarþingmanns Texas, er …
Færslan sem birtist á aðgangi Ted Cruz, öldungardeildarþingmanns Texas, er afar myndræn og vakti hörð viðbrögð meðal fylgjenda hans. Skjáskot/Twitter

Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz er kominn í hann krappan eftir að færsla á Twitter-aðgangi hans með klámfengnu efni birtist öllum fylgjendum hans.

Fjöldi Twitter-notenda tók skjáskot af færslunni og hefur Cruz verið krafinn svara um hvers vegna hann, eða einhver í hans nafni, hafi líkað við umræddan „klámpóst“.

Catherine Frazier, helsti samskiptaráðgjafi Cruz, tísti um færsluna og sagði hana afar móðgandi og að hún hefði verið fjarlægð. Færslan var einnig tilkynnt til stjórnenda Twitter.

Í frétt The Guardian kemur fram að Twitter-notendur séu hins vegar ruglaðir í ríminu og krefjist frekari svara þar sem færslan er í raun ekki tíst, heldur lítur út fyrir að Cruz, eða einhver í hans nafni, hafi líkað við færsluna. Allt þykir þetta afar óheppilegt í ljósi þeirra íhaldssömu fjölskyldugilda sem Cruz stendur fyrir.

Færslan hefur einnig vakið umræðu um dómsmál frá árinu 2007 þar sem tvö fyrirtæki sem selja kynlífsleikföng kærðu yfirvöld í Texas sem settu lögbann á svokölluð „hjúskaparhjálpartæki“. Cruz, sem þá gegndi starfi héraðsdómslögmanns, færði rök fyrir því að það að nota kynlífsleikföng væri keimlíkt því að ráða vændiskonu. 

Uppfært kl. 15:13: 

Cruz hefur tjáð sig um færsluna og segir starfsmann úr sínum röðum ábyrgan. „Fjöldi fólks úr starfsliði mínu hefur aðgang að Twitter-aðganginum. Svo virðist sem einhver úr þeirra röðum hafi óvart ýtt á „like“-takkann. Þegar við uppgötvuðum færsluna, einum eða tveimur klukkutstundum seinna, var hún fjarlægð,“ segir Cruz í samtali við Politico

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert