Hvetur yfirvöld til að sýna mannúð

Talið er að um 370.000 Rohingjar hafi flúið yfir til …
Talið er að um 370.000 Rohingjar hafi flúið yfir til Bangladess á síðastliðnum vikum. AFP

Forsætisráðherra Bangladess hvetur yfirvöld í Búrma til að taka á móti Rohingja-múslimum sem haf flúið átökin í Rakine-héraði sem hófust í síðasta mánuði. Talið er að um 370.000 Rohingjar hafi flúið yfir til Bangladess á síðastliðnum vikum.

Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, sagði í samtali við fjölmiðla eftir að hún heimsótti Kutupalong flóttamannabúðirnar í Bangladess að mikilvægt væri að taka á þeirri stöðu sem nú er komin upp af mannúð. Ekki sé hægt að horfa upp á þennan fjölda fólks þjást.   

Búrmíski her­inn þvertekur fyrir að almennir borgarar verði fyrir árásum, heldur séu þeir eingöngu að bregðast við árás­um upp­reisn­ar­manna Rohingja. Þeir Rohingjar sem hafa lagt á flótta hafa aðra sögu að segja, ofbeldið sé gríðarmikið og heilu þorpin hafi verið brennd sem neyði almenna borgara til að leggja á flótta.

Frétt mbl.is: „Skólabókadæmi um þjóðernishreinsanir“

Fréttamenn BBC hafa rætt við Rohingja sem eru örkumla eft­ir að hafa stigið á jarðsprengj­ur á flótt­an­um til Bangla­dess. Heimildarmenn í Bangladess greina nú frá því að fleiri jarðsprengjum hafi verið komið fyrir. Yfirvöld í Búrma neita þessum ásökunum.

Tvær opinberar flóttamannabúðir eru til staðar í Bangladess og eru þær báðar yfirfullar. Hjálparsamtök hafa greint frá því að brýn þörf sé á matvælum, skjóli og læknisaðstoð fyrir þá flóttamenn sem sífellt bætast í hópinn.

„Þetta er saklaust fólk. Börn og konur sem þjást. Þetta er fólk sem hefur átt heimili í Búrma í hundruði ára. Hvernig er hægt að neita því að þau séu viðurkenndir borgarar?“ segir Sheikh Hasina. Þá sagði hún að Bangladess myndi veita Rohingjum skjól þar til yfirvöl í Búrma eru tilbúin að sýna mannúð og taka við þeim á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert