Íbúum leyft að snúa heim eftir Irmu

Hreinsunarstarf er hafið í Key Largo á Flórída. Íbúar og …
Hreinsunarstarf er hafið í Key Largo á Flórída. Íbúar og eigendur fyrirtækja hafa fengið að snúa aftur, en eru varaðir við að öll þjónusta sé af mjög skornum skammti. AFP

Búið er að opna hluta Florida Keys fyrir íbúum og eigendum fyrirtækja á eyjunum eftir að fellibylurinn Irma fór yfir Flórídaskaga í gær og fyrradag. Florida Keys eru meðal þeirra staða á Flórída sem taldir eru hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á Irmu, sem var fjórða stigs fellibylur er hún fór þar yfir.

BBC segir aðgang að eyjunum vera takmarkaðan við íbúa og eigendur fyrirtækja, þar sem að vinna við hreinsun gatna og burðaþol þeirra brúa sem tengja eyjurnar meginlandinu er enn í fullum gangi.

Irma hefur nú misst kraft sinn að miklu leyti, en fellibylurinn er tengdur 10 dauðsföllum í Bandaríkjunum; sex á Flórída, þremur í Georgíu og einu í Suður-Karólínuríki. Eyðileggingaslóð Irmu um eyjar Karíbahafs var ekki minni, en talið er að hún hafi kostað 37 manns lífið hið minnsta á för sinni þar um.

Íbúi í Jacksonville Flórída fylgist hér með flóðavatni í kjölfar …
Íbúi í Jacksonville Flórída fylgist hér með flóðavatni í kjölfar Irmu koma upp að húsinu hjá sér. AFP

Gagnrýndir fyrir aðgerðaleysi

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, er nú á leið til þeirra frönsku eyja Karíbahafs sem urðu fyrir barðinu á Irmu til að berja eyðilegginguna augum og eins er Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, á leið til Bresku Jómfrúreyja í sömu erindagjörðum. Bæði ríki hafa verið gagnrýnd fyrir að veita íbúum þessara nýlendusvæða aðstoð gegn fellibylnum.

Búið er að opna bæina Key Largo, Tavernier og Islamorada á Florida Keys fyrir umferð íbúa. Íbúar hafa hins vegar verið varaðir við því að öll þjónusta sé af afar skornum skammti. Flest svæðin séu enn án rafmagns og vatns, farsímasamband lélegt og flestar bensínstöðvar lokaðar.

Talið er að þúsundir manna hafa hundsað boð yfirvalda um að yfirgefa eyjarnar í síðustu viku og hafi þess í stað hafst þar við í storminum.

Kona myndar hér báta sem Irma hefur fleygt upp á …
Kona myndar hér báta sem Irma hefur fleygt upp á land á Flórída. AFP

„Vona að allir hafi lifað af“

Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, flaug yfir Florida Keys á mánudag og sagðist hafa séð eyðilegginguna. „Ég vona að allir hafi lifað af,“ sagði Scott. „Það sem við sáum var hræðilegt. Sérstaklega á Keys [eyjunum]. Þetta á eftir að taka langan tíma.“ Fjölda báta hafi skolað upp á land og gott sem hvert einasta hjólhýsi sem þar sást var á hvolfi.  „Ég sá þó ekki þær skemmdir sem að ég bjóst við að sjá,“ bætti Scott við. Vindstrengirnir hafi á endanum „ekki orðið jafn slæmir og við héldum“.

Bandaríska flugmóðuskipið Abraham Lincoln er nú úti fyrir ströndum Flórída og von er á fleiri skipum sjóhersins í dag, en þau verða notuð til að dreifa matvælum til íbúa eyjanna og hjálpa til við að flytja þá á brott.

Aðrir hlutar Flórídaríkis eru þó sagðir hafa sloppið vel í samanburði við Karíbaeyjarnar. „Vindstyrkurinn á Miami er bara brot af því sem hann hefði geta verið ef miðja stormsins hefði verið lengra til austurs,“ sagði Rick Knabb, fyrrverandi forstjóri bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar í Twitter skilaboðum.

Víða þarf að hreinsa vegi áður en hægt er að …
Víða þarf að hreinsa vegi áður en hægt er að hleypa umferð um þá að nýju. AFP

„Langar að fara að gráta“

Carlos Gimenez, borgarstjóri Miami, hefur einnig lýst yfir létti með að skemmdirnar voru ekki meiri. „Við sluppum betur en aðrir hlutar ríkisins og getum þakkað Guði fyrir það,“ sagði Gimenez.

Hús Melidu Hernandez, íbúa í Little Haiti hverfinu í Miami, var klofið í tvennt af tré sem fallið hafði á það. „Mig langaði til að fara að gráta,“ sagði Hernandez við Reuters-fréttastofuna. „En svona er þetta bara, svona er lífið.“

Irma flokkast nú sem hitabeltisstormur og var vindhraði hennar um 56 km/klst er hún heldur leið sinni áfram yfir til Atlanta í Georgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert