Stíga á jarðsprengjur á flótta frá Búrma

Rohingja-múslimar koma til Bangladess eftir að hafa farið yfir ána …
Rohingja-múslimar koma til Bangladess eftir að hafa farið yfir ána Naf sem er á landamærum Búrma og Bangladess. AFP

15 ára drengur missti báða fætur er hann steig á jarðsprengju á flótta sínum frá Búrma. Kona sem nú dvelur á sama spítala segist einnig hafa stigið á jarðsprengju er hún flúði skothríð hermanna stjórnarhers Búrma. Fréttamaður BBC ræddi við Rohingja-múslima, sem nú dvelja í Bangladess og eru örkumla eftir að hafa stigið á jarðsprengjur á flóttanum til Bangladess.

Mannréttindasamtökin Amnesty International sökuðu í gær yfirvöld í Búrma um að koma jarðsprengjum fyrir á landamærum ríkjanna og stjórnvöld í Bangladess hafa áður komið með sambærilega ásökun. Fjöldinn allur af sprengjum voru grafnar í jörðu á landamærum ríkjanna á tíunda áratug síðustu aldar, en heimildamenn BBC í Bangladess segja stjórnarherinn nýlega hafa bætt þar við nýjum sprengjum. Yfirvöld í Búrma hafna slíkum ásökunum alfarið. 

Rúmlega 300.000 Rohingjar hafa nú flúið hernaðaraðgerðir stjórnarhersins í Rak­hine fylki eftir að til átaka kom þar í síðasta mánuði. Zeid Raad al-Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær aðgerðir stjórnarhersins  vera skólabókadæmi um þjóðernishreinsanir.

Flóttamannabúðir Rohingja í Ukhia í Bangladess. Rúmlega 300.000 Rohingjar hafa …
Flóttamannabúðir Rohingja í Ukhia í Bangladess. Rúmlega 300.000 Rohingjar hafa nú flúið frá Búrma á tæpum mánuði. AFP

Gagnrýnd fyrir að gera ekkert

Rohingjar eru minnihlutahópur múslima sem búa í Rak­hine-ríki í vest­ur­hluta Búrma. Það er eitt fá­tæk­asta svæði Búrma og á landa­mæri að Bangla­dess. Þar hef­ur ólga milli múslima og búdd­ista verið viðvar­andi árum sam­an og þar eru Rohingj­ar neydd­ir til að haf­ast við. Þeir hafa ekki ferðaf­relsi og borg­ara­leg rétt­indi þeirra eru að öðru leyti einnig skert.

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, sætir nú vaxandi gagnrýni alþjóðasamfélagsins fyrir að gera ekkert í málinu .

Hinn 15 ára gamli Azizu Haque er einn þeirra sem steig á jarðsprengju. Hann missti báða fætur og dvelur nú á sjúkrahúsi í Bangladess. Móðir hans segir bróður hans liggja á öðru sjúkrahúsi í landinu með svipuð meiðsl.  

Sabequr Nahar særðist einnig þegar hún flúði Búrma. Hún var að flýja með þremur sonum sínum þegar hún steig á jarðsprengju. Nahar segir herinn hafa ráðist gegn þorpi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert