Valinn fyrir góða og slæma daga

Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins.
Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins. AFP

„Ég er kosinn til þess að leiða Verkamannaflokkinn í gegnum góða daga og slæma daga, þegar við vinnum og þegar við töpum,“ segir Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK spurður um stöðu sína eftir að flokkur hans tapaði fylgi í þingkosningunum á mánudaginn miðað við kosningarnar 2013 og komst ekki í ríkisstjórn. Vangaveltur hafa verið um það hvort hann eigi eftir að segja af sér.

Støre leggur áherslu á að hann hafi umboð sitt frá landsfundi Verkamannaflokksins og hann líti svo á að hann hafi víðtækt umboð til þess að leiða flokkinn í gegnum það sem framundan er og byggja flokkinn upp á nýjan leik. Aðspurður segist hann ekki hafa rætt við miðstjórn Verkamannaflokksins eftir kosningarnar. Flokkurinn hlaut 27,4% fylgi og hefur ekki fengið jafn slæma útkomu árum saman. Staða Støres sem leiðtoga þykir því óljós.

Haft er eftir Hadia Tajik, varaformanni Verkamannaflokksins, að staða Støres hafi ekki verið rædd enn af forystu flokksins. „Við höfum rætt það hvernig við hefðum getað gert hlutina betur, innri og ytri aðstæður sem höfðu áhrif á kosningabaráttuna og hvernig málflutningur okkar um ýmis mál, eins og skattamál, hafi verið,“ segir Støre. Fara þurfi vel yfir það hvernig kosningabaráttan var háð. Hann leggur þó áherslu á að flokkurinn standi saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert