Hóta að sökkva Japan og myrkva Bandaríkin

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu (fyrir miðju) og kona hans Ri …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu (fyrir miðju) og kona hans Ri Sol-ju voru viðstödd listviðburð sem tileinkaður var þeim vísindamönnum sem vinna að þróun kjarnorkuvopna fyrir ríkið. AFP

Norðurkóresk ríkisstofnun hótaði í dag að beita kjarnavopnum til að „sökkva“ Japan og sveipa Bandaríkin „ösku og myrkri“ vegna stuðnings ríkjanna við viðskiptaþvinganir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu.

Sérstök norðurkóresk friðarnefnd í málefnum Kóreu, Asíu og Kyrrahafsríkja, sem sér um samskipti Norður-Kóreu og annarra ríkja og áróður heimafyrir, hvatti þá til þess að öryggisráðið yrði leyst upp að því að Reuters greinir frá. Enda væri öryggisráðið „verkfæri illskunnar“ sem væri samsett af „mútuþægum“ ríkjum sem hlýddu skipunum Bandaríkjanna.

„Það ætti að sökkva fjórum eyjum eyjahafsins í hafið með Juche-kjarnorkusprengju. Japan þarf ekki að vera til nálægt okkur,“ sagði í yfirlýsingu nefndarinnar til norðurkóresku ríkisfréttastofunnar KCNA.

Spenna hefur aukist verulega í samskiptum Norður-Kóreu við önnur ríki eftir að Norður-Kórea sprengdi vetnissprengju, sem er þeirra öflugasta til þessa, neðanjarðar í byrjun september.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna brást við með því að samþykkja hertar viðskiptaþvinganir í garð ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert