Ætlaði út í sjoppu að kaupa sælgæti 1988

Wikipedia/J. P. Fagerback

Enginn veit enn þann dag í dag hver stóð að því að nema Theresu Johannessen, níu ára gamla, á brott í Fjell-hverfinu í Drammen um kvöldmatarleytið 3. júlí 1988 en eftir að hafa verið úti að leika sér með vinum sínum ætlaði hún út í sjoppu að kaupa sælgæti. Þangað kom hún reyndar en síðan hefur ekkert til hennar spurst. Nú benda nýjar vísbendingar til þess að Theresa hafi verið flutt til Pakistan og gæti verið á lífi þar, þá tæplega fertug.

Það er norski netmiðillinn ABC Nyheter sem fyrst greindi frá málinu í dag og staðfestir Christine Fossen, lögreglustjóri Suðaustur-umdæmisins, að málið verði tekið upp að nýju og fært yfir á borð rannsóknardeildar kaldra mála eða „Cold Case gruppen“ eins og hún kallast.

Leitin að Theresu á sínum tíma var gríðarleg að umfangi og var á þessum tíma um að ræða dýrasta og umsvifamesta sakamál sem upp hafði komið í Noregi og stóð það met þar til rannsókn NOKAS-bankaránsins í Stavanger hófst vorið 2004.

Sænska játningin 1998

Árið 1998 kviknaði von til þess að málið upplýstist þegar sænski raðmorðinginn Thomas Quick, sem þá var vistaður á geðsjúkrahúsi í Svíþjóð, játaði að hafa numið Theresu á brott og myrt hana. Þetta var ekki talið óhugsandi þar sem Quick hafði þá hlotið dóma fyrir átta morð, þar af þrjú á norskum stúlkum.

Ríkislögmaður Noregs heimilaði þá að rannsóknin yrði færð undir forræði sænsku lögreglunnar en henni varð lítt ágengt með Quick þegar yfirheyrslur hófust. Árið 2008 dró hann að lokum játninguna til baka og hafði þá breytt nafni sínu í Sture Bergwall. Á árunum eftir það kom í ljós að Bergwall/Quick var að öllum líkindum enginn raðmorðingi og sennilega ekki einu sinni morðingi, heldur aðeins maður, veikur á geði.

Við nánari skoðun mála hans kom í ljós að meint sönnunargögn í þeim öllum voru meingölluð og framburðir vitna í besta falli óljósir. Árið 2013 ákváðu sænsk yfirvöld að snúa öllum átta dómunum og náða Bergwall.

Lögreglan vill ekki fara út í það í viðtölum við norska fjölmiðla hvaða nýju gögn sé um að ræða nú og hvers vegna talið sé að Theresa sé í Pakistan, en talar eingöngu um framfarir í rannsóknum á DNA-erfðaefni og að ýmislegt sjáist nú í „nýju ljósi“. Málið verði þó ekki forgangsmál hjá „Cold Case“-hópnum fyrst um sinn, það fari í sína biðröð en hafi verið opnað á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert