Hættir vegna Manning

Chelsea Manning.
Chelsea Manning. AFP

Michael Morell, fyrrverandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), hefur sagt upp stöðu sinni hjá Harvard vegna ráðningar Chelsea Manning til skólans.

Morell segir í uppsagnarbréfi sínu að hann geti ekki tekið þátt í starfi skóla sem heiðrar glæpamann sem hefur setið í fangelsi og lekið trúnaðarupplýsingum. Harvard hefur síðan hætt við að  bjóða Manning gestastöðu við skólann en hún sé velkomin þangað sem ræðumaður.

Manning var dæmd fyrir njósnir árið 2013 eftir að hafa lekið leynigögnum bandaríska ríkisins.

Í afsagnarbréfi sínu fordæmir Morell Kennedy School of Government, stofnun innan Harvard sem fékk Manning til starfa, og segir að ákvörðun skólans muni styðja baráttu Manning fyrir lögleiðingu glæpsins sem hún framdi og hvetja aðra uppljóstrara til dáða. 

Hann segist aftur á móti styðja réttindi Manning sem trans-manneskju í Bandaríkjunum af heilum hug og þar á meðal rétt til þess að þjóna landi sínu í bandaríska hernum. 

Manning svarar Morell á Twitter með því að segja gott að Morell yfirgefi Harvard og að stöðuveiting hennar hafi ekkert að gera með réttindi trans-fólks. 

Hún birti einnig á Twitter hluta af bók Morell frá árinu 2015 þar sem hann ver drónaárásir og að pynta fólk sem grunað er um aðild að hryðjuverkasamtökum.

Morell starfaði innan CIA í alls 33 ár og gegndi stöðu forstjóra árin 2010 til 2013.

Sjá frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert