Heili fjarlægður úr albínóadreng

Yfir hundrað árásir á albínóa hafa átt sér stað í …
Yfir hundrað árásir á albínóa hafa átt sér stað í Mósambik frá árinu 2014. Mynd/Wikipedia.org

17 ára gömlum albínóadreng var rænt í Mósambik fyrir skömmu og hann myrtur á hrottafenginn hátt. Drengurinn fannst látinn á miðvikudag. Heili hans hafði þá verið fjarlægður, ásamt hári og beinum úr hand- og fótleggjum, en talið er að tilgangurinn hafi verið að nota líkamshlutana til að framkvæma galdra. AFP-fréttastofan hefur þetta hefur fréttamiðlum í Mósambik.

Albínóum í Mósambik er oft rænt og þeir drepnir til að komast yfir líkamshluta þeirra, en þeir eru notaðir sem lukkugripir og í galdraseyði og eru taldir færa mönnum aukna velsæld og heppni. Samkvæmt gögnum frá Sameinuðu þjóðunum hafa verið gerðar yfir 100 árásir á albínóa í Mósambik frá árinu 2014 í þeim tilgangi að komast yfir líkamshluta þeirra, en mannræningjar ásælast allt frá tám þeirra til andlita.

Lík drengsins fannst sundurskorið á Benga-svæðinu í Tete-héraði í Mósambik, rétt við landamæri Malaví, en þar er talinn vera stór markaður með líffæri og líkamshluta úr albínóum. 

Morðið á drengnum á sér stað aðeins fjórum mánuðum eftir að tilraun foreldra til að selja albínóabarn sitt fór út um þúfur í bænum Moatize í Mósambik.

Lögreglan í Tete-héraði rannsakar nú morðið á drengnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert