Ískyggileg skýrsla Kripos-lögreglunnar

Annar skýrsluhöfunda óhugnanlegrar skýrslu Kripos um kynferðisbrot barna gagnvart börnum …
Annar skýrsluhöfunda óhugnanlegrar skýrslu Kripos um kynferðisbrot barna gagnvart börnum segir þá gríðarlegu aukningu tilfella, sem fram kemur milli áranna 2015 og 2016, verulegt áhyggjuefni. „Hefði mátt fyrirbyggja mörg brotanna,“ segir sálfræðingur. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Svo mikil fjölgun tilkynntra tilfella sem hér er raunin kemur á óvart,“ segir John-Filip Lundhaug Strandmoen, lögreglumaður hjá norsku rannsóknarlögreglunni Kripos, sem er, ásamt samstarfsmanni sínum, höfundur kolsvartrar skýrslu sem norska ríkisútvarpið NRK fjallar um í dag.

Í fyrra nam fjölgun tilkynninga um nauðganir, þar sem yngri börn en 14 ára koma við sögu, en gerendur eru allt að 18 ára, það er undir lögaldri, 60 prósentum, úr 248 tilfellum árið 2015 upp í 383 í fyrra. Er þarna um að ræða stóraukningu frá meðaltalstölfræði áranna 2012 – 2016.

„Þegar við sjáum fjölgun frá einu ári til annars hugsar maður oft að tilkynningaþröskuldurinn er lægri nú en áður, fleiri þora núna að stíga fram og tilkynna um kynferðislegt ofbeldi,“ segir Strandmoen. „Hins vegar er erfitt að útskýra svo mikla fjölgun, eins og þá sem við nú sjáum, og þess vegna kom þetta mér að óvörum.“

Aðstandendur heimildaþáttanna Innafor (ísl. Fyrir innan) á NRK, sem oft glíma við málefni sem snúast um fíkniefni, ofbeldi og fleiri skuggahliðar samfélagsins, hafa fengið aðgang að skýrslu Kripos þar sem meðal annars kemur fram að börn, allt niður í átta ára aldur, hafi í fyrra verið tilkynnt sem gerendur í nauðgunarmálum þar sem önnur börn voru fórnarlömb.

Teiti og félagar

Skýrslan tekur á 225 nauðgunarkærum þar sem gerendur undir 18 ára aldri hafa nauðgað öðrum börnum sem eru yngri en 14 ára. Nánast allir hinna kærðu eru karlkyns og stærstur hluti þeirra er undir sakhæfisaldri sem er 15 ár í Noregi eins og á Íslandi. Í 33 prósentum tilfella er fórnarlamb ofbeldisins félagi, vinur eða annar aðili sem gerandinn þekkir. Annar áberandi hluti eru tilfelli sem koma upp í teitum en einnig er áberandi að fórnarlambið sé maki eða systkini gerandans.

„Í mörgum málanna er um að ræða gerendur hvers vinskapur við þolandann hefur varað langt tímabil og brotið hefur komið fórnarlambinu algjörlega í opna skjöldu. Eins sjáum við mörg tilfelli þar sem aðilarnir þekkjast gegnum aðra, til dæmis systkini,“ segir í skýrslu Kripos.

Strandmoen og félagar segjast vona að þessi stóraukni fjöldi tilfella stafi einkum af því að fleiri þori nú að stíga fram en áður og að fólki þyki orðið auðveldara að ræða um áföll sem það hefur orðið fyrir. „Þessu getum við þó ekki slegið föstu og í raun getum við ekki útilokað neitt,“ segir hann við NRK.

Deild V27

Monica Jensen sálfræðingur segir í samtali við NRK að mörg þessara tilfella hefði í raun mátt fyrirbyggja. Jensen starfar á deild V27 við Betanien-sjúkrahúsið í Bergen en sú deild sérhæfir sig í að taka á móti barnungum fórnarlömbum kynferðisbrota. Hún sýnir aðstandendum þáttarins Innafor sérútbúið herbergi í kjallara sjúkrahússins þar sem er að finna knattborð, boxpúða, pílukastspjald og önnur áhöld til afþreyingar.

„Þetta er herbergið sem við notum þegar við sjáum að ungmennið hefur þörf fyrir eitthvað annað en bara að sitja í stól og ræða við einhvern. Skrifstofurnar okkar bjóða auðvitað upp á takmarkað rými fyrir hreyfingu og ganga meira út á samtöl og skýrslutekt. Hér getum við öðlast örlítið meiri tengsl með því að bjóða upp a líkamlega virkni og leiki,“ útskýrir Jensen.

Hún segir að hinn dæmigerði gerandi sé 14 ára drengur sem hafi níðst á sér yngri börnum. Flestir eigi sér erfiða fortíð og fjölskylduaðstæður og að meðaltali hafi hver um sig brotið af sér kynferðislega þrisvar sinnum áður en leið þeirra liggur inn á deild V27.

„Annaðhvort eru þeir félagslega einangraðir og eiga fáa eða enga vini eða eiga yngri vini sem þeir eiga frekar samleið með. Oftast eiga þessir gerendur sér sögu um fíkniefnaneyslu, skróp í skóla, lygar og þjófnað og hafa sýnt af sér árásargjarna hegðun gagnvart fullorðnum og öðrum börnum.

En það er bara brot af þessum einstaklingum sem fær hjálp,“ segir Jensen að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert