Undir árás í baráttunni við Ríki íslams

Sýrlenska lýðræðissveitin sakar Rússa um að hafa varpað sprengjum á …
Sýrlenska lýðræðissveitin sakar Rússa um að hafa varpað sprengjum á hermenn sína í Deir Ezzor í Sýrlandi. AFP

Sýrlenska lýðræðissveitin (SDF), er nýtur stuðnings Bandaríkjamanna og berst gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, sakar Rússa um að hafa varpað sprengjum á hermenn sína í dag. Rússar neita þessum ásökunum. 

Þetta er í fyrsta sinn sem SDF, sem er bandalag araba og Kúrda, segist hafa verið skotmark Rússa. Bæði SDF og stjórnarher Sýrlands sækja á sama tíma að hinu svokallaða Ríki íslams í austurhluta Deir Ezzor-umdæmis, en í sitt hvoru lagi. Svæðið er ríkt af olíu og því hernaðarlega mikilvægt.

„Klukkan 3:30 (00:30 að íslenskum tíma) þann 16. september 2017 urðu hersveitir okkar austur af Efrat-ánni skotmark herflugvéla Rússa og stjórnarhers Sýrlands á Al-Sinaaiya-svæðinu,“ segir í tilkynningu frá SDF. Þá segir að sex hermenn hafi slasast.

Rússar neita þessum ásökunum alfarið. „Það er ekki mögulegt, hvers vegna ættum við að varpa sprengjum á þá?“ Segir Igor Konashenkov, talsmaður rússneska hersins, við fréttastofu AFP.

Hersveitir SDF í Deir Ezzor og Raqa, sem berjast gegn vígamönnum hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams, njóta stuðnings Bandaríkjamanna á meðan Rússar verja hermenn sýrlenska stjórnarhersins úr lofti.

Stríðið átakanlega í Sýrlandi, sem í upphafi voru friðsöm mótmæli almennra borgara árið 2011, hefur þróast út í það að vera orðið gríðarlega flókið stríð þar sem margir mismunandi aðilar eiga hlut að máli. Yfir 330.000 hafa látið lífið og milljónir misst heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert