Hjón myrt í ferðamannaparadís

Frá Balí.
Frá Balí. Wikipedia/Jimmy McIntyre

Lögregla á Indónesíu hefur handtekið mann í tengslum við morðið á eldra japönsku pari en líkin fundust brennd í ferðamannaparadísinni Jimbaran á Balí. Hinn handtekni er 25 ára heimamaður en hann er grunaður um að hafa stungið fólkið til bana.

Það var indónesískur fóstursonur Nurio Matsuba 76 ára og eiginkonu hans Hiroko 73 ára sem fann lík þeirra 4. september sl. Lögregla telur að um sé að ræða rán sem fór úrskeðis.

Putu Astawa er sagður hafa skuldað jafnvirði 80.000 króna og hafa haft í huga að afla peninganna með ránum. Lögregla segir hann hafa bundið Hiroko og myrt, áður en hann lét til skarar skríða gegn eiginmanni hennar.

Morðin áttu sér stað á heimili hjónanna en talið er að Astawa hafi yfirgefið íbúðina um stund, snúið aftur og kveikt í. Parið hafði búið á eyjunni í sjö ár.

Balí er vinsæll ferðamannastaður. Smáglæpir eru tíðir en grimmileg morð eiga sér sjaldan stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert