Krefjast lista yfir aflýstar ferðir

AFP

Lággjaldaflugfélagið Ryanair er undir miklum þrýstingi að birta lista yfir þær flugferðir sem félagið hyggst aflýsa næstu vikur en tilkynnt var á laugardag að félagið myndi fella niður 40-50 ferðir á hverjum degi næstu sex vikur vegna klúðurs við skipulagningu orlofa flugmanna.

Hingað til hafa forsvarsmenn Ryanair aðeins birt lista yfir þær flugferðir sem falla niður fram til miðvikudags. Samkvæmt neytendasamtökunum Which? eiga farþegar hins vegar rétt á meiri fyrirvara til að geta gert ráðstafanir.

Klúðrið kann að hafa áhrif á allt að 400.000 farþega en þeim verður boðið að breyta flugmiðum sínum eða fá endurgreitt.

Samkvæmt BBC ku flugfélagið eiga erfitt með að fylla stöður flugmanna og þá herma fregnir að það hafi misst starfsmenn til Norwegian Air. Talsmaður Norwegian sagði í raun að 140 flugmenn Ryanair hefðu gengið til liðs við félagið á þessu ári.

Vegna manneklunnar hafa flugmenn verið beðnir um að vinna þegar þeir hugðust taka orlof og þá mun ástandið hafa áhrif á vaktaplön.

BBC hefur eftir einum flugmanna Ryanair að orlofsútskýringin sé uppspuni; rót vandans sé flótti flugmanna frá fyrirtækinu og erfiðleikar við að þjálfa nýja starfsmenn.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert