Lýst sem vingjarnlegum og ræðnum

Lögregla gerði húsleit á heimili í Sudbury þar sem báðir …
Lögregla gerði húsleit á heimili í Sudbury þar sem báðir mennirnir höfðu dvalið á fósturheimili sem unglingar. AFP

Breska lögreglan fékk í kvöld framlengt varðhald yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um sprengjutilræði í neðanjarðarlest í London á föstudag. 30 manns hið minnsta slösuðust í sprengitilræðinu sem var er heimatilbúin sprengja sprakk að hluta í neðanjarðarlest við Parsons Green-lestarstöðina.

Greint var frá því á laugardag að 18 ára karlmaður hefði verið handtekinn við höfnina í Dover og að 21 árs maður hefði verið handtekinn í Hounslow.

BBC segir 18 ára manninn hafa þar til nýlega verið á fósturheimili í Sunbury-on-Thames og að hinn eldri hafi tengsl við íbúa hússins og stendur nú yfir húsleit þar. Hjónin sem þar búa Ronald og Penelope Jones eru á áttræðis- og níræðisaldri og er lýst sem sönnum „samfélagsstoðum“.

Myndir úr eftirlitsmyndavélum sýna einstakling bera plastpoka frá Lidl-verslanakeðjunni um borð í lestina 90 mínútum áður en sprengjan sem var í slíkum poka sprakk og fréttastofa BBC hefur undir höndum myndir úr eftirlitsmyndavélum sem sýna einstakling yfirgefa fósturheimilið með samskonar poka snemma á föstudagsmorgun.

Nágrannar 18 ára mannsins segja hann hafa flutt til Bretlands 15 ára gamlan þegar foreldrar hans dóu og að hann hafi reynt að flýja frá fósturheimilinu. Lögreglubílar hafi því sést nokkrum sinnum fyrir framan heimilið á undanförnum mánuðum.

Talið er að 21 árs maðurinn sé Sýrlendingur, Yahyah Farroukh að nafni. Hann hafði einnig búið sem fósturbarn í húsinu er hann var yngri og var honum lýst sem „vingjarnlegum“ og ræðnum ungum manni.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni, en Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, segir ekkert benda til tengsla við samtökin á þessu stigi rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert