Maria orðin 2. stigs fellibylur

Fellibyljir sem hafa farið yfir eyjarnar í Karíbahafi hafa valdið …
Fellibyljir sem hafa farið yfir eyjarnar í Karíbahafi hafa valdið mikilli eyðileggingu. AFP

Fellibylurinn Maria er kominn upp í annan styrkleikaflokk og nær vindhraðinn upp í 175 km/klst. Maria stefnir hraðbyr að eyjum í austurhluta Karíbahafi sem eru þegar illa útleiknar eftir fellibylinn Irmu.  

Banda­ríska felli­byljamiðstöðin segir að Maria eigi eftir að verða „stór fellibylur“ og nái þriðja styrkleikaflokk seinna í dag. 

Viðvörun vegna Mariu hefur verið gefin út meðal annars á eyjunum Guadeloupe, Dominica, St. Kitts, Nevis og bresku eyjunum Montserrat. Rauð viðvörun var gefin út í dag á eyjunum Guadeloupe og Martinique þar sem skólum, opinberum byggingum og fyrirtækjum var lokað. Á hvorri eyju um sig búa um 400 þúsund manns. 

Á austurhluta eyjunnar Martinique var vindhraðinn þegar orðinn 135 km/klst, samkvæmt Fellibyljamiðstöðinni. Búist er við að ölduhæð gæti náð allt að 1,5 til 2,1 metra á hæð þegar Maria skellur á. 

Fellibylurinn Irma var mannskæð og létust að minnsta kosti 60 manns, þar af 40 á eyjum í Karíbahafi og 20 manns í Florida.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert