Munu gefa í undir þrýstingi

Á föstudaginn skutu yfirvöld í Norður-Kóreu eldflaug yfir Japan.
Á föstudaginn skutu yfirvöld í Norður-Kóreu eldflaug yfir Japan. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa varað við því að hertar refsiaðgerðir og þrýstingur af hálfu alþjóðasamfélagsins muni aðeins verða til þess að þau muni leggja aukinn þunga í þróun kjarnorkuáætlunar sinnar.

Utanríkisráðuneyti landsins sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í dag þar sem nýsamþykktar refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna eru m.a. sagðar „siðlausar“ og „ómannúðlegar“.

Það var ríkisfréttastofan KCNA sem greindi frá yfirlýsingunni en í henni segir einnig að refsiaðgerðunum sé ætlað að steypa sitjandi stjórnvöldum af stóli.

Gripið var til þess að herða refsiaðgerðirnar 11. september sl., eftir að yfirvöld í Norður-Kóreu framkvæmdu sjöttu og öflugustu kjarnorkutilraun sína til þessa.

Gert er ráð fyrir því að Norður-Kórea verði efst á dagskrá þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í vikunni og fundar með leiðtogum Suður-Kóreu og Japans.

Sameiginlegar heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna standa nú yfir. Þá standa einnig yfir sameiginlegar heræfingar Kína og Rússlands austur af Kóreuskaga.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert