Pútín sleppir fundi SÞ fyrir stríðsleiki

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu fylgjast með heræfingum …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu fylgjast með heræfingum í dag. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er meðal þeirra sem eru fjarstaddir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, sem hófst á Manhattan í New York í dag. Áður hefur verið greint frá því að Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, mæti ekki vegna rohingja-deilunnar heima fyrir.

Fjarvera Pútins er sögð vera til komin af því að hann ætlar að fylgjast með stríðsæfingum rússneska hersins í nágrenni landamæranna sem Rússland deilir með NATÓ-ríkjunum í austri.

Rússneska Itar-Tass-fréttastofan hefur þetta eftir talsmanni stjórnvalda í Kreml og er það því hlutverk utanríkisráðherrans Sergei Lavrov að sitja þingið.

Pútín hefur, að því er Newsweek greinir frá, raunar ekki mætt á allsherjarþingið frá því 2015, er hann flutti þar ræðu þar sem hann sakaði vestræna leiðtoga um að bera ábyrgð á vexti öfgatrúarsamtaka múslima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert