Síðasti séns Suu Kyi að breyta um stefnu

Aung San Suu Kyi hefur vakið reiði alþjóðasamfélagsins fyrir aðgerðaleysi …
Aung San Suu Kyi hefur vakið reiði alþjóðasamfélagsins fyrir aðgerðaleysi gegn ofsóknum í garð rohingja. AFP

Búist er við að Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, muni á morgun rjúfa þögn sína varðandi ofsóknir sem rohingja-fólk, minnihlutahópur múslima í Rakhine héraði hefur sætt af höndum hersins í Búrma undanfarið. Rúmlega 400.000 rohingjar hafa flúið yfir til nágrannaríkisins Bangladess.  

AFP-fréttastofan segir Suu Kyi ætla að flytja þjóð sinni sjónvarpsávarp á morgun, en hún hefur sætt gagnrýni og reiði alþjóðasamfélagsins fyrir að gera ekkert til að stöðva ofsóknir í garð rohingja.

Ráðamenn á Vesturlöndum vöruðu Suu Kyi í dag við afleiðingum þess að gera ekkert og boðaði Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands í dag til fundar til hliðar við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú er haldin í New York. Meðal fundargesta var Nikki Hayli fastafulltrúi Bandaríkjanna og sendifulltrú Búrma hjá Sameinuðu þjóðunum.

Varaði Johnson við því að ofsóknirnar í Rakhine-héraði væru smánarblettur á orðspori Búrma, svo skömmu eftir að lýðræði var komið á í landinu.

„Af þessum sökum ættu yfirvöld í Búrma ekki að undrast að þau séu undir smásjá alþjóðasamfélagsins, eða að þau séu á dagskrá Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Johson.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í samtali við BBC áður en allsherjarþingið hófst, að nú væri „síðasti  séns“ Suu Kyi að breyta um stefnu í málinu.

Aðgerðaleysi Suu Kyi hefur vakið reiði erlendis, en stuðningsmenn hennar í Búrma segja hana skorta völd til að stjórna hernum, sem sakaður er um morð og íkveikjur sem hrakið hafa rúmlega 410.000 rohingja frá heimilum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert