Skutu LGBT-baráttumanneskju til bana

Scout Schultz.
Scout Schultz. Facebook-síða GT Progressive Student Alliance

Lögregla í Georgíuríki skaut til bana unga baráttumanneskju fyrir réttindum LGBT-fólks á laugardagskvöldið. Manneskjan var vopnuð og neitaði að leggja frá sér hníf sem hún var með þegar lögregla kom á vettvang.

Lögregla var kölluð út vegna manneskju sem væri vopnuð hníf og byssu á stúdentagörðum í Atlanta seint á laugardagskvöldið.

Þegar lögregla kom á vettvang neitaði Scout Schultz, 21 árs, að verða við ósk lögreglunnar um að leggja frá sér hníf sem hún var með. 

Á myndskeiði sem skólasystkini Schultz við Georgia Institute of Technology tóku heyrist Schultz segja: „Skjótið mig!“ á sama tíma og hún sótti að lögreglu. Einn lögreglumaður brást við og skaut hana til bana. 

Schultz - sem hvorki er skilgreind sem kona eða karl - reyndist ekki vopnuð byssu líkt og haldið var fram í símtali til neyðarlínunnar. Schultz, sem var nemandi í tölvunarfræði, lést af sárum sínum á sjúkrahúsi.

Móðir Schultz, Lynne, er afar ósátt við að Scout, sem fæddist sem Scott Schultz, skyldi vera skotin til bana af lögreglu en Schultz hefur glímt við þunglyndi og reyndi að fremja sjálfsvíg fyrir tveimur árum. 

„Af hverju notuðu þeir ekki vopn sem er ekki banvænt, svo sem piparúða eða rafbyssu?“ er haft eftir henni í blöðum í Atlanta. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert