Gátan um afdrif Wallenbergs óleyst

Raoul Wallenberg árið 1944.
Raoul Wallenberg árið 1944.

Rússneskur dómstóll hafnaði í gær beiðni afkomenda sænska stjórnarerindrekans Raouls Wallenbergs um að rússnesku leyniþjónustunni verði gert að birta upplýsingar sem snerta dauða Wallenbergs í sovésku fangelsi.

Wallenberg kom sér upp bækistöð í Búdapest í Ungverjalandi árið 1944 í því skyni að forða gyðingum undan oki Helfararinnar. Almennt er álitið að hann hafi bjargað tugum þúsunda frá bráðum bana í fangabúðum nasista. Honum hefur verið líkt við verksmiðjueigandann Oskar Schindler, sem bjargaði fjölmörgum gyðingum frá því að enda í útrýmingarbúðum nasista.

Eftir að Sovétmenn hernámu Búdapest, skömmu fyrir stríðslok, var Wallenberg handtekinn og fangelsaður í illræmdum höfuðstöðvum leyniþjónustunnar í Moskvu þar sem talið er að hann hafi látist.

Frænka Wallenbergs, Marie Dupuy, höfðaði mál í júlí gegn rússnesku leyniþjónustunni, FSB, sem er arftaki sovésku leyniþjónustunnar, KGB og NKVD, til þess að krefjast þess að fá aðgang að upplýsingum um afdrif stjórnarerindrekans.

Áratugum saman hefur fjölskyldan reynt að komast að hinu sanna varðandi dauða Wallenbergs án árangurs. En það tók dómarann aðeins einn dag að úrskurða FSB í hag. Fjölskyldan ætlar að áfrýja niðurstöðunni, að sögn lögmanns hennar, Ivans Pavlovs.

Ekkert spurðist til Wallenbergs í meira en áratug en í febrúar 1957 birtu sovésk stjórnvöld skjal þess efnis að Wallenberg hefði orðið bráðkvaddur í fangaklefa sínum 17. júlí 1947. Í skjalinu fer forstöðumaður Lubyanka-fangelsisins fram á það við varnarmálaráðherra landsins að fá að kryfja líkið til að finna banameinið.

Árið 2000 sagði yfirmaður rússneskrar rannsóknarnefndar að Wallenberg hefði verið skotinn til bana af leyniþjónustunni án þess að gefa frekari upplýsingar um málið.

FSB hafnaði beiðni fjölskyldunnar á sínum tíma á grundvelli þess að með því væri brotið á rétti annarra einstaklinga sem koma fyrir í gögnunum um Wallenberg.

Ef ekki tekst að fá áfrýjunardómstól til þess að krefja FSB um að veita þessar upplýsingar þarf fjölskyldan að bíða í nokkur ár til viðbótar þar sem sú regla gildir að ekki þurfi að birta slíkar upplýsingar fyrr en eftir 75 ár. Það þýðir að skjöl frá árinu 1947 þarf ekki að birta fyrr en 2022. Móðir Wallenbergs og stjúpfaðir sviptu sig bæði lífi árið 1979, buguð af óvissunni um afdrif sonar síns.

Frétt sænska ríkissjónvarpsins um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert