„Hungurleikakveðja“ tákn um mótstöðu

Andstæðingar Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, hafa tekið upp kveðju úr …
Andstæðingar Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, hafa tekið upp kveðju úr Hungurleikunum sem tákn um mótspyrnu við stjórnarháttum forsetans og umdeildu stríði hans gegn fíkniefnum. AFP

Andstæðingar Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, hafa komið sér upp formlegri kveðju sem tákn um mótspyrnu við stjórnarháttum Duterte og umdeildu stríði hans gegn fíkniefnum.

Kveðjan á rætur sínar að rekja til þríleiksins um Hungurleikanna eftir Suzanne Collins og aðalpersónu bókanna, Katniss Everdeen, og felst í að lyfta þremur fingrum upp í loft. Kveðjan er jafnframt sett til mótvægis við kveðju sem Duterte notar ítrekað þegar hann setur krepptan hnefa á loft í augnhæð, sem þykir minna óþægilega mikið á kveðju nasista.

Fjöldi andstæðinga Duterte kom saman í gær og flutti kveðjuna samhuga. Tilefnið var tilkynning á fyrirhuguðum mótmælafundi á fimmtudag þar sem „slóð forsetans sem er uppfull af ofbeldi, hatri og lítilsvirðingu laganna“ verður mótmælt.

Þúsund­ir hafa lát­ist frá því að Duterte lýsti yfir um­deildu stríði gegn fíkni­efn­um í fyrra. Herferð for­set­ans er ætlað að þurrka með öllu út fíkni­efnaviðskipti í land­inu. Hún hef­ur hins veg­ar verið harðlega gagn­rýnd af mann­rétt­inda­sam­tök­um og alþjóðasam­fé­lag­inu vegna fjölda dauðsfalla.

„Já, við höfum tekið upp „þriggja-fingra-kveðjuna“ sem tákn um mótstöðu, rétt eins og í þríleiknum um Hungurleikana,“ segir þingmaðurinn Gary Alejano í samtali við AFP-fréttastofuna.

Með því að taka upp kveðjuna vilja andstæðingar Duterte meðal annars ná til ungs fólks.

Kveðjur af þessu tagi og önnur tjáning með höndum eru þekkt pólitísk tákn á Filippseyjum. „L-táknið“ var til að mynda notað meðal aðgerðasinna á 9. áratugnum til að sýna mótstöðu við einræðisstjórn Ferdinand Marcos sem steypt var af stóli með byltingu árið 1986.

Andstaða við fíkni­efna­stríðið hef­ur verið lít­il inn­an­lands, þar til nú. Vendipunkturinn er talinn vera morð á hinum 17 ára gamla Kian de­los Santos, sem var skot­inn í höfuðið af lög­reglu­mönn­um og skil­inn eft­ir hjá svínastíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert