Skjálfti upp á 7,4 skekur Mexíkóborg

Lögreglumaður stendur vörð utan við byggingu sem hrundi í skjálftanum …
Lögreglumaður stendur vörð utan við byggingu sem hrundi í skjálftanum í dag. AFP

Jarðskjálfti sem mældist 7,4 reið yfir í Mexíkó nú síðdegis að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir bandarísku jarðfræðistofnuninni. Skjálftans varð vel vart í höfuðborginni Mexíkó. Engar fréttir hafa enn borist af mannfalli eða skemmdum.

Skjálftinn varð um 8 km suðaustur af Atencingo, í Puebla-fylki sem er nágrannafylki höfuðborgarinnar og á 51 km dýpi.

Luis Felipe Puente, yfirmaður almannavarna Mexíkó, sagði á Twitter nú fyrir skemmstu að engar fréttir hefðu enn borist af skemmdum eða mannfalli vegna skjálftans.

Hlúð er að konu sem slasaðist í jarðskjálftanum í Mexíkóborg …
Hlúð er að konu sem slasaðist í jarðskjálftanum í Mexíkóborg í dag. AFP

Jarðskjálftinn olli skelfingu í Mexíkóborg, þar sem tuttugu milljónir manna búa, en fyrr í dag var efnt til stórrar æfingar í borginni á viðbrögðum við jarðskjálfta. Var það gert í tilefni að því 32 ár eru í dag liðin frá því að skjálfti varð sem mældist 8,0. Þá fórust fimm þúsund manns og gríðarlegar skemmdir urðu í borginni.

Uppfært klukkan 19:50

Fréttir hafa borist af fólki sem er fast undir byggingum sem hafa hrunið, engar fregnir hafa þó enn borist af manntjóni. Þá er eldur sagður loga á nokkrum stöðum í höfuðborginni og eins hafa borist fregnir af skemmdum í nærliggjandi borgum af völdum skjálftans.

Fólk þusti út á götur borgarinnar. Hér eru íbúar að …
Fólk þusti út á götur borgarinnar. Hér eru íbúar að fjarlægja brak byggingar sem hrundi í skjálftanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert