Fylgi flokks þýskra þjóðernissinna eykst

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að flokkur þjóðernissinna, Nýr valkostur fyrir Þýskaland, AfD, hafi aukið fylgi sitt og verði þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu eftir kosningar á sunnudaginn kemur.

Samkvæmt könnunum hefur fylgi AfD aukist úr 8-10% í 10-12% á síðustu vikum. Flokkur Angelu Merkel kanslara, Kristilegir demókratar (CDU), og systurflokkur hans í Bæjaralandi (CSU) hafa misst um tveggja prósentustiga fylgi á sama tíma. Þeir njóta nú stuðnings 36% þýskra kjósenda, ef marka má kannanirnar. Í síðustu kosningum var fylgi CDU og CSU 41,5% og árið 2009 var það 33,8%.

Kristilegir demókratar og systurflokkurinn eru þó enn með mikið forskot á þýska jafnaðarmenn (SPD) sem mælast nú með 23% fylgi.

Útlit er fyrir að AfD verði fyrsti þjóðernisflokkurinn sem fær sæti á þýska sambandsþinginu frá árinu 1945. Kannanirnar benda til þess að AfD verði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Þýskalandi fari svo að Kristilegir demókratar og þýskir jafnaðarmenn þurfi að halda áfram stjórnarsamstarfi sínu eftir kosningarnar. Talið er að Merkel vilji að CDU og CSU myndi stjórn með Frjálsum demókrötum, sem mælast nú með 9-10% fylgi, en ekki er útlit fyrir að þeir fái meirihluta á þinginu, ef marka má kannanirnar.

Alexander Gauland og Alice Weidal fara fyrir þingmannsefnum AfD í kosningabaráttunni og þau segja að flokkurinn stefni hærra en að verða stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Weidal sagði í viðtali við dagblaðið Frankfurter Rundschauað eftir eitt kjörtímabil á þinginu ætti flokkurinn að vera nógu öflugur til að geta komist til valda árið 2021.

Þingmannsefni flokksins hafa lagt áherslu á andstöðu sína við fjölgun innflytjenda frá löndum múslíma. „Íslam á ekki heima í Þýskalandi,“ sagði Gauland á blaðamannafundi í Berlín í gær. Hann bætti við að pólitískar kenningar íslams væru „ekki samrýmanlegar frjálsu landi“. „Orðagjálfur, ofbeldi og hryðjuverk íslamista eiga rætur í Kóraninum og kenningum íslams.“

 Stoltur af „afrekum þýskra hermanna“

Gauland sagði nýlega að Þjóðverjar ættu að vera stoltir af þýskum hermönnum sem börðust í heimsstyrjöldunum tveimur. „Ef Frakkar geta verið stoltir af keisara sínum (Napóleon) og Bretar af (Horatio) Nelson og (Winston) Churchill þá ættum við að hafa rétt til að vera stolt af afrekum þýskra hermanna í heimsstyrjöldunum,“ sagði Gauland.

 Andstæðingar hans sögðu ummælin sýna að AfD væri „öfgaflokkur“ og bentu m.a. á að Þjóðverjar gætu ekki verið stoltir af fjöldamorðum á gyðingum.

Nýr valkostur í sókn

 Nýr valkostur fyrir Þýskaland var stofnaður í apríl 2013 og fékk 4,7% atkvæða í þingkosningum í september það ár. Hann var þá mjög nálægt því að fá nógu mikið fylgi, eða minnst 5%, til að fá sæti á þýska þinginu. Flokkurinn er nú með sæti í 13 af 16 þingum sambandslanda Þýskalands og líklegt er að fylgi flokksins tvöfaldist í komandi kosningum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert