Sakaði leigubílstjóra ranglega um nauðgun

Wikipedia

Bresk kona hefur verið dæmd í fangelsi í 16 mánuði fyrir að hafa sakað leigubílstjóra, sem vildi ekki taka við 10 punda seðli löðrandi í kebab-olíu sem greiðslu, um nauðgun. Konan, hin 22 ára gamla Sophie Pointon, tjáði lögreglu að hún hefði orðið fyrir ofbeldinu í aftursæti leigubifreiðarinnar eftir að sest inn í hana eftir djamm.

Pointon, sem stundað hefur háskólanám í afbrotafræði, hringdi í lögregluna að morgni 22. apríl á þessu ári og skrifaði síðan undir yfirlýsingu á lögreglustöð í borginni Leeds. Haft var uppi á leigubílstjóranum sem kannaðist við að hafa tekið Pointon upp í bifreið sína. Var hann í gæsluvarðhaldi í sex tíma og gat ekki stundað vinnu sína í mánuð vegna málsins.

Leigubílstjórinn sagði Pointon hafa verið mjög drukkna þegar hún steig inn í bifreiðina og að hún hafi haldið á kebabi. Hún hafi hent í hann 10 punda seðli löðrandi í kebab-olíu en hann neitað að taka við honum. Pointon hafi þá látið öllum illum látum. Hann hafi ekki kippt sér mikið upp við það enda ekki óalgengt að drukkið fólk hegðaði sér þannig.

Hljóðupptaka af samskiptum leigubílstjórans við skiptiborð leiðubílastöðvarinnar studdi málflutning hans um að hann væri saklaus. Þá voru GPS-upplýsingar úr bifreiðinni ekki í samræmi við þá leið sem Pointon sagði bifreiðina hafa ekið.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að hún hafi brotnað niður þegar lögreglan hafi sýnt fram á að málflutningur hennar gengi ekki upp og viðurkennt að hafa gerst sek um að bera rangar sakir upp á leigubílstjórann. Vonir Pointon um að verða lögreglukona munu að engu orðnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert