Frysta laun „draugaverkamanna“

Ákvörðunin hefur eins og gefur að skilja valdið gremju meðal …
Ákvörðunin hefur eins og gefur að skilja valdið gremju meðal þeirra opinberu starfsmanna af holdi og blóði sem flækst hafa í netinu. AFP

Stjórnvöld í Gíneu-Bissaú hafa haldið eftir launagreiðslum nærri þriðjungs 13.000 opinberra starfsmanna ríkisins, sem þau gruna um að vera svokallaða „draugastarfsmenn“.

Að sögn fjármálaráðherrans Alhaji Joao Amadu Faida leiddi athugun starfsmanna ráðuneytisins í ljós að um 4.000 „falskir“ starfsmenn væru að fá launagreiðslur frá ríkinu og í sumum tilvikum tvöfaldar greiðslur.

Umræddar greiðslur, sem greiða átti út á mánudag, voru frystar þar til rannsókn hefur farið fram. Sagðist ráðherrann eiga von á „öldugangi“ vegna ákvörðunarinnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Afríkuríki tekur til á launaskránni en í fyrra tóku stjórnvöld í Nígeríu um 50.000 „draugaverkamenn“ af launaskrá og spöruðu þannig um 80 milljarða króna.

Eins og gefur að skilja hefur aðgerðin vakið mikla óánægju meðal opinberra starfsmanna af holdi og blóði sem flækst hafa í netinu. Fatima Camara, blaðamaður hjá ríkisútvarpinu, hefur til að mynda ekki fengið útborgað né fengið neina skýringu á því hvers vegna ekki.

Að sögn Gino Mendes, fyrrverandi fjármálaráðherra, eru látnir fyrrverandi starfsmenn meðal þeirra 4.000 sem fá ekki greitt í september, starfsmenn sem komnir eru á eftirlaun og aðrir sem hafa jafnvel fengið margfaldar greiðslur inn á marga reikninga.

Þá er í mörgum tilvikum um að ræða einstaklinga sem settir eru á launaskrá en vinna enga vinnu fyrir ríkið. Hefur AFP eftir embættismanni að þekkt sé að þegar ný stjórn taki við sé flokksmönnum komið fyrir á launaskrá, án þess að fara í gegnum ráðningarferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert