Vonast enn til að finna fólk á lífi

„Ég er mjög þreytt,“ sagði 13 ára stúlka sem liggur föst undir húsarústum í Mexíkóborg eftir að 7,1 stiga skjálfti reið þar yfir, þegar grannvaxinn sjálfboðaliði náði til hennar með vatn og súrefni. Íbúar Mexíkó bíða nú fregna af stúlkunni og fleiri sem kunna að vera á lífi en að minnsta kosti 233 eru látnir.

Viðbragðsaðilar, herinn og sjálfboðaliðar vinna hörðum höndum að því að fjarlægja brak í rústum eftir skjálftann en athyglin hefur einna helst beinst að skóla í suðurhluta Mexíkóborgar þar sem 21 barn og fimm fullorðnir létust þegar byggingin hrundi.

Margra barna er enn saknað.

Hitageislunarnemar benda til þess að hópur barna sé á lífi á nokkrum stöðum í rústunum.

„Við vitum að það er barn á lífi inni, það sem við vitum ekki er hvernig við getum náð til hennar,“ sagði Jose Luis Vergara, sem fer fyrir björgunaraðgerðunum við skólann, í samtali við Televisa fyrr í dag.

Umrætt barn var hin 13 ára stúlka, sem sjálfboðaliðinn náði til skömmu síðar.

Manni er bjargað úr húsarústum í Mexíkóborg.
Manni er bjargað úr húsarústum í Mexíkóborg. AFP

Alls hefur 11 börnum verið bjargað úr rústum Enrique Rebsamen-grunnskólans til þess og einum kennara.

„Enginn getur ímyndað sér sársaukann sem ég er að upplifa,“ hefur AFP eftir Adriönu Fargo þar sem hún stóð við rústirnar og beið frétta af sjö ára dóttur sinni.

Í hverfinu Condesa sat Karen Guzman á stól úti á götu og sneri baki í eina af hinum hrundu byggingum. Hún sagðist ekki þola spennuna sem hefði myndast í kringum leitina að hinum 30 einstaklingum sem taldi eru hafa orðið undir rústunum.

Bróðir hennar er einn þeirra sem saknað er.

Við hlið hennar standa tveir staurar sem á hanga listar yfir þá sem hefur verið bjargað. Juan Antonio, 43 ára bókari, sem starfaði á efstu hæð hinnar fjögurra hæða byggingar, er ekki á listunum.

„Mamma er að leita að honum á sjúkrahúsum því við treystum ekki þessum listum,“ segir Fargo. „Stundum held ég að enginn viti neitt.“

Grafík/AFP

50 bjargað

Björgunarmenn segja að einhverjum hefði verið bjargað eftir að þeir sendu WhatsApp-skilaboð til ættingja úr rústunum. Fjöldi sjálfboðaliða hefur aðstoðað við björgunarstörfin og þá hefur fjöldi almennra borgara lagt fórnarlömbum og viðbragðsaðilum til mat og drykk. 

Forsetinn Enrique Pena Nieto hefur heimsótt þau svæði sem verst urðu úti og lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg.

„Forgangsmálið er að bjarga mannslífum,“ sagði hann þegar hann ávarpaði þjóðina. Enn væri von til þess að finna fólk á lífi. 50 hefði þegar verið bjargað í höfuðborginni.

Samkvæmt borgarstjóranum Miguel Angel Mancera hrundu 39 byggingar í borginni. Leit stendur yfir í öllum nema fimm, þar sem björgunarmenn telja enga fasta.

Margir íbúa dvöldu í almenningsgörðum og á torgum í nótt. Þeir þora ekki heim en yfirvöld rannsaka nú um 600 byggingar sem virðast hafa orðið fyrir verulegum skemmdum í skjálftanum.

Björgunarmaður leitar í braki.
Björgunarmaður leitar í braki. AFP

Fyrir aðeins tveimur vikum létust nærri 100 í öðrum skjálfta í suðurhluta Mexíkó. Sérfræðingar segja skjálftana þó ekki tengda, þar sem langt sé á milli þeirra svæða þar sem þeir áttu upptök sín.

Mexíkó liggur á fimm jarðskorpuflekum og skjálftar tíðir.

Samkvæmt yfirmanni almannavarna ríkisins létust 102 í Mexíkóborg þegar skjálftinn reið yfir, 69 í Morelos, 43 í Puebla, 13 í Mexíkóríki, fimm í Guerrero og einn í Oaxaca.

Margar kirkjur skemmdust í Puebla og ein hrundi. Ellefu létust en skírn fór fram í kirkjunni þegar skjálftinn reið yfir.

Hermenn virða fyrir sér eyðilegginguna.
Hermenn virða fyrir sér eyðilegginguna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert