Stúlkan í rústunum var aldrei til

Hermenn og sjálfboðaliðar fjarlægja hér brak úr byggingu sem hrundi …
Hermenn og sjálfboðaliðar fjarlægja hér brak úr byggingu sem hrundi í skjálftanum í Mexíkóborg. AFP

Frida Sofia, ung stúlka sem talið var að væri föst í rústum Enrique Rébsamen-barnaskólans í Mexíkóborg, fangaði hug mexíkósku þjóðarinnar sem er enn að jafna sig á áfallinu eftir jarðskjálftann á þriðjudag, sem vitað er að hafi kostað hið minnsta 273 lífið. Nú virðist hins vegar sem að Frida Sofia hafi aldrei verið til.

Á meðan björgunarmenn unnu í kapp við tímann að ná fólki á lífi úr rústum barnaskólans beindist athygli landsmanna að örlögum barnsins.

Leitarhundar eru notaðir til að finna fólki í rústum húsanna …
Leitarhundar eru notaðir til að finna fólki í rústum húsanna sem hrundu í skjálftanum. AFP

Frida Sofia á að hafa sagt: „Ég er þyrst. Það er í lagi með mig. Ekki vera of lengi,“ að því er mexíkóska dagblaðið El Universal greindi frá í gær.

BBC segir mexíkóska sjóherinn síðan hafa staðfest í gærkvöldi að sagan af Fridu væri fölsk og baðst afsökunar á misvísandi fréttum. 

Talið var að Frida Sofia væri meðal fjölda barna og fullorðinna einstaklinga sem hefðu verið föst í rústum barnaskólans í rúma 32 klukkutíma. Mexíkóskir fjölmiðlar biðu við rústir skólans og notendur samfélagsmiðla deildu sögunni af Fridu og stuðningsskilaboðum henni til handa.

Efasemdir vöknuðu þegar ekkert heyrðist í foreldrunum

„Frida Sofia litla er búin að vera  á lífi í 32 tíma undir rústunum að berjast fyrir lífi sínu. Hún er alvöru baráttumanneskja og mun losna brátt,“ skrifaði einn Twitter-notandi í skilaboðum sem var deilt meira en 5.000 sinnum.

Þegar Jose Vergara Larra aðmíráll sagði fjölmiðlum að stúlka hefði fundist á lífi eftir fjögurra tíma björgunaraðgerðir þá virtist það staðfesta orðróminn.

Efasemdir tóku hins vegar að vakna þegar engir gáfu sig fram sem foreldrar stúlkunnar, ekki könnuðust skólayfirvöld heldur við að stúlka með þessu nafni væri meðal nemenda skólans.

Sjálfboðaliðar ná sér smá kríu á milli vinnu við rústabjörgunina.
Sjálfboðaliðar ná sér smá kríu á milli vinnu við rústabjörgunina. AFP

Angel Enrique Sarmiento hjá sjóhernum staðfesti í dag að sagan af Fridu Sofiu væri ekki sönn. Ekkert benti til þess að barn væri á lífi í rústunum og hvorki skólayfirvöld né borgaryfirvöld könnuðust við stúlkuna. Þá dró Sarmiento til baka þá fullyrðingu sjóhersins að stúlka hefði fundist á lífi.

„Ég bið Mexíkóa afsökunar á upplýsingunum [...]  sjóherinn hefur engar upplýsingar um að barn hafi lifað þennan harmleik af,“ sagði hann. Lík af einum kennara skólans fannst hins vegar í rústunum í gærkvöldi.

Spænska dagblaðið El País segir söguna af Fridu Sofiu minna á aðra sögu frá jarðskjálftanum sem varð þúsundum að bana í Mexíkó árið 1985, sem þá var sögð af uppskáldaða barninu Monchito.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert