Óttast húsnæðisskort eftir jarðskjálftann

Tjaldborg hefur nú risið suður af Mexíkóborg þar sem hluti þeirra íbúa, sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum á þriðjudag, hefur komið sér fyrir. Tala látinna er nú komin upp í 286, en rústabjörgunarmenn eru enn að störfum þó að vonin um að fólk finnist á lífi í rústunum fari dvínandi.

52 byggingar hrundu í Mexíkóborg í jarðskjálftanum og mörg hús til viðbótar eru illa farin eftir skjálftann. Mbl.is ræddi á miðvikudag við Signýju Bergsdóttur sem býr í Mexíkóborg með fjölskyldu sinni. Miklar sprungur voru í jarðhæð hússins sem þau búa í. „Það á enn eft­ir að skoða okk­ar bygg­ingu,“ sagði Signý en óvíst væri hvort hún væri íbúðarhæf. Þau gerðu ráð fyrir að dvelja hjá frænda manns hennar næstu daga.

Björgunarsveitarmenn bera lík úr rústum eins þeirra húsa sem hrundu …
Björgunarsveitarmenn bera lík úr rústum eins þeirra húsa sem hrundu í Mexíkóborg. AFP

Óttast húsnæðisskort eftir skjálftann

20 milljónir manna búa í Mexíkó og umfang eyðileggingarinnar er sífellt að koma betur í ljós. Reuters-fréttastofan segir þessar miklu skemmdir líklegar til að valda húsnæðisskorti í borginni á næstu vikum.

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, fullyrti í dag að björgunaraðgerðum yrði haldið áfram og mexíkóskir fjölmiðlar greindu í dag frá því að tveir hefðu verið dregnir úr rústum textílverksmiðju í Colonia Obrera-hverfinu í gær.

Í Girasoles-íbúðakjarnanum í suðurhluta borgarinnar hafa stór svæði verið girt af eftir að tvær af 30 blokkum hrundu í skjálftanum. Á handskrifuðu skilti við götuna kemur fram að 14 hafi farist þarna.  

Björgunarsveitarmenn að störfum. Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, fullyrti í …
Björgunarsveitarmenn að störfum. Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, fullyrti í dag að björgunaraðgerðum yrði haldið áfram. AFP

Fá 20 mínútur til að taka til nauðsynjar

Íbúar hafa fengið að fara heim til sín, einn og einn í einu, og fá 20 mínútur hver til að taka til nauðsynjar. Signý sagði við mbl.is hús enn vera að hrynja eftir skjálftann. „Það var ein bygg­ing að hrynja fyr­ir 20 mín­út­um hérna skammt frá þar sem ég er. Hún var illa far­inn eft­ir skjálft­ann,“ sagði Signý á miðvikudag.

Hún og maður hennar skutust inn heima hjá sér í sprungið húsið til að ná í pela fyrir son sinn, vegabréf og peninga svo að þau væru ekki algjörir strandglópar. „Fólk á nátt­úru­lega al­eigu sína í þess­um hús­um og er því að fá að fara inn og sækja dótið sitt. Stund­um er þung­inn af fólk­inu nóg til að húsið hrynji,“ sagði hún.

Íbúar í Girasoles óttast nú margir að heimili þeirra verði rifin þegar byggingaeftirlitsmenn hafa lokið vinnu sinni við að áætla hvaða hús teljist örugg og hvaða hús teljist hættuleg.

Leitarhundum hefur verið fjölgað við rústaleitina.
Leitarhundum hefur verið fjölgað við rústaleitina. AFP

Eru ótryggðir

„Byggingin er mjög, mjög skemmd. Hún hreyfist. Það hreyfist allt,“ sagði Vladimir Estrada, er hann sneri til baka pokum hlaðinn úr skyndiferð í íbúð sína sem er á fimmtu hæð.

„Engir hérna eru með tryggingar. Sumir eiga fjölskyldur sem geta hjálpað þeim, aðrir ekki. Það er allt í óvissu.“

Þeir sem engan stað hafa til að að fara á hafast ýmist við í bílum sínum eða í tjaldbúðunum og nýta hverja stund sem þeir fá til að sækja eigur sínar. Yfirvöld hafa enn enga aðkomu að því að aðstoða íbúa tjaldbúðanna, að sögn Önu Karen Almanza, eins starfsmanns neyðarþjónustunnar, sem var að dreifa vistum til fólks í búðunum.

„Þetta kemur frá íbúunum, frá nágrönnunum,“ sagði hún. „Margt af þessu fólki hefur engan annan stað til að búa á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert