Eldflaugatilraun í Íran

Khoramshahr flaugin sýnd í gær.
Khoramshahr flaugin sýnd í gær. AFP

Stjórnvöld í Íran segjast hafa gert vel heppnaða tilraun með eldflaugaskot á meðaldrægri flaug. Litið er á skotið sem ögrun við forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.

Khoramshahr flauginni, sem hefur tveggja þúsunda kílómetra drægi, var skotið upp í morgun og var sýnt beint frá skotinu í ríkissjónvarpi landsins. Ekki hefur verið upplýst um hvaðan henni var skotið.

Á þriðjudag gagnrýndi Trump í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York eldflaugaáætlun Íran og um leið kjarnorkusamninginn sem gerður við Íran árið 2015 þegar Barack Obama var forseti Bandaríkjanna.

Í gær sagði forseti Írans, Hassan Rouhani, að Íran myndi auka hernaðarmátt sinn í varnarskyni. Khoramshahr flaugin var fyrst sýnd í göngu hersins í Teheran í gær. Hún getur borið marglaga kjarnaodda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert