Er Sýrland að gleymast?

Stríðið í Sýrlandi hefur tekið nýja stefnu í kjölfar þess að ljóst er að vígasamtökin Ríki íslams eru að missa yfirráðin í tveimur helstu vígum sínum í landinu. Svo virðist sem þetta hafi vakið litla athygli meðal leiðtoga helstu ríkja heims ef marka má umræðuna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Um er að ræða Raqqa og Deir Ezzor.

Áður var Sýrland í brennidepli allsherjarþingsins en í ár hefur athyglin færst yfir til Norður-Kóreu og Íran vegna kjarnorkuvopnaáætlana ríkjanna. Í fyrra var aftur á móti togstreitan milli vesturveldanna og Rússlands annars vegar og Íran hins vegar vegna stuðnings tveggja síðastnefndu við stjórnvöld í Sýrlandi. Alls ráðandi enda stóð baráttan um Aleppo sem hæst. 

Síðan þá hafa hersveitir Bashar al-Assad forseta endurheimt Aleppo og flest svæði sem áður voru undir yfirráðum stjórnarandstæðinga með dyggum stuðningi frá bandamönnum í Moskvu og Teheran.

Rússland, Íran og Tyrkland hafa sett upp fjögur svæði í Sýrlandi sem markvisst er dregið úr átökum. Ríkin vinna að þessu markmiði með Bandaríkjunum og Jórdaníu, það er að koma á vopnahléi. 

„Stríðinu í Sýrlandi er ekki lokið,“ segir Federica Mogherini, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, á fundi utanríkisráðherra ESB þar sem málefni Sýrlands voru rædd.

Hún segir hins vegar að ástandið hafi skánað og Ríki íslams glatað yfirráðasvæðum. „Fyrir marga Sýrlendinga getur þetta skipt sköpum á milli lífs og dauða.“

Stríðið í Sýrlandi hefur geisað í á sjöunda ár og að minnsta kosti 330 þúsund hafa látist. Yfir fimm milljónir Sýrlendinga eru á flótta og litlar líkur á að þeir geti snúið aftur heim á næstunni. Staðan í landinu er afar flókin og um leið eldfim ekki síst með afskiptum Kúrda og Ísraelsmanna í átökin í landinu en ótti við að Sýrland verði stökkpallur fyrir Íran hefur áhrif á afstöðu ríkja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert