Nýsjálenska ríkisstjórnin fallin

Bill English, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Bill English, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Óvíst er hverjir mynda nýja ríkisstjórn á Nýja-Sjálandi en kosið var til þings í dag. Nýsjálenski Þjóðarflokkurinn vann varnarsigur og fær 58 þingsæti, tveimur færri en í síðustu kosningum fyrir þremur árum. Flokkurinn, sem er stóri hægriflokkur landsins, þarf því áfram  að reiða sig á stuðning minni flokka til að mynda ríkisstjórn. Flokkurinn þarf þó að finna sér nýja samstarfsflokka því hinir féllu af þingi, og kemur raunar bara einn til greina.

Miðjuflokkurinn Nýja-Sjáland fyrst, er nú með pálmann í höndunum. Hann fékk nær 11% atkvæða og 9 menn kjörna og getur valið hvort hann myndar ríkisstjórn til vinstri með Jafnaðarmönnum og Græningjum eða til hægri með Þjóðarflokknum.
Flokkurinn var stofnaður árið 1993 en hann leggur áherslu á herta innflytjendalöggjöf og er tíðrætt um mikilvægi laga og reglu. Hann hefur áður stutt ríkisstjórnir til hægri og vinstri en var í stjórnarandstöðu ásamt Jafnaðarmönnum á síðasta þingi.

Jafnaðarmenn eru næststærstir á þingi með 45 sæti, 13 fleiri en er kosið var fyrir þremur árum.

Annað tækifæri

Bill English, forsætisráðherra og formaður Þjóðarflokksins, tók við embættinu í desember eftir að flokksbróðir hans John Key sagði óvænt af sér. English er talinn íhaldssamari en forveri hans og hefur meðal annars lagst gegn hugmyndum um afglæpavæðingu vændis, frjálslyndari löggjöf um fóstureyðingar og lögleiðingu kannabiss. Þá kaus hann gegn lögum sem heimiluðu hjónaband samkynhneigðra árið 2013 en hefur síðar lýst því yfir að líklegast kysi hann með því í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem English gegnir embætti formanns Þjóðarflokksins því hann leiddi flokkinn einnig í kosningunum 2002 er hann galt afhroð og hlaut einungis 20% atkvæða – helmingi færri en Jafnaðarmenn. Hann hefur nú fengið annað tækifæri og gengur ívið betur, en flokkurinn fékk 46% fylgi í kosningunum nú.

Ferskur blær jafnaðarmanna

Leiðtogi Jafnaðarmanna heitir Jacinda Ardern. Hún er 37 ára gömul og yngst til að leiða stjórnarandstöðu þar í landi.

Ardern hefur setið á þingi síðan 2008 en var kjörin formaður fyrir sjö vikum síðan er Andrew Little sagði af sér í kjölfar slæms gengis Jafnaðarmanna í skoðakönnunum. Formannsskiptin hafa heldur betur skilað tilætluðum árangri og mældist flokkurinn með tæplega 40 prósenta fylgi skömmu fyrir kosningar, 15 prósentustigum meira en fyrir formannsskiptin. Nýsjálenskir miðlar ganga svo langt að kalla áhrifin af persónufylgi hennar Jackindamania eða Jackindu-brjálæðið.

Ardern ólst upp á Norðurey Nýja-Sjálands þar sem faðir hennar var lögregluþjónn. Hún segir fátækt sem hún kynntist í æsku hafa mótað pólitískar skoðanir hennar. Ardern var alin upp í mormónatrú en yfirgaf trúna rúmlega tvítug vegna ólíkra viðhorfa til samkynhneigðar. Hún lauk gráðu í stjórnmálafræði og almannatengslum frá Háskólanum í Waikato og gengdi síðar stöðu yfirráðgjafa hjá ríkisstjórn Tony Blair í Bretlandi.

Hún hefur lýst sjálfri sér sem hefðbundnum jafnaðarmanni og femínista, auk þess sem hún vill setja á stofn lýðveldi með forseta í stað Bretadrottningar. Þá hefur hún talað fyrir frjálslyndari löggjöd um fóstureyðingar.

 

Jacinda Ardern, formaður Jafnaðarmannaflokks Nýja-Sjálands
Jacinda Ardern, formaður Jafnaðarmannaflokks Nýja-Sjálands AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert