Trump sendir þingmönnum tóninn

Donald Trump vill Obamacare burt.
Donald Trump vill Obamacare burt. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sendir þeim öldungadeildarþingmönnum Repúblikanaflokksins tóninn sem ekki styðja afnám Obamacare. Í ræðu sem forsetinn hélt í Alabama í dag segir hann þingmenn flokksins, sem setja sig gegn áformum forsetans og annarra repúblikana um afnám heilbrigðislöggjafarinnar sem sett var í tíð Baracks Obama,  skorta hugrekki til að kjósa um afnám.

John McCain, öldungadeildarþingmaður flokksins, lýsti því yfir í gær að hann gæti ekki með góðri samvisku stutt afnám Obamacare sem var mikið högg fyrir forsetann og aðra helstu andstæðinga Obamacare. Var það í annað sinn sem McCain kom heilbrigðislöggjöfinni til bjargar.

Forsetinn segir afstöðu McCain hafa verið bæði „óvænta“ og „skelfilega.“

„Ég fékk lista yfir tíu manns sem eru algjörlega mótfallnir þessi,“ sagði forsetinn og vísaði þar til afnáms Obamacare. „John McCain var ekki á listanum svo það kom fullkomlega á óvart, skelfilegt alveg, virkilega skelfilegt,“ sagði hann og bætti við að á endanum muni það takast að nema heilbrigðislöggjöfina á brott og ný lög taki gildi í staðinn.

Hvert einasta at­kvæði þing­manna re­públi­kana um afnámið skipt­ir sköpum til að áform forsetans nái fram að ganga en demó­krat­ar hafa sam­ein­ast í and­stöðu sinni við áform for­set­ans og standa vörð um Obamacare. Andstaða McCain gæti gert út af við ára­langa at­lögu íhalds­manna að heil­brigðis­lög­gjöf­inni sem kennd er við Barack Obama.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert