Merkel væntanlega áfram kanslari

Angela Merkel verður væntanlega áfram kanslari Þýskalands en gleðin hefur oft verið meiri í herbúðum Kristilegra demókrata þar sem þjóðernisflokkurinn AfD virðist hafa fengið 13-13,5% atkvæða, samkvæmt útgönguspám.

Kristilegir demókratar (CDU), og systurflokkur hans í Bæjaralandi (CSU)  eru með 32,5-33,5% atkvæða og þýskir jafnaðarmenn (SPD) eru með 20-21% fylgi, samkvæmt útgönguspám sem sjónvarpsstöðvarnar ARD og ZDF birtu fyrir skömmu.

Í síðustu kosningum var fylgi CDU og CSU 41,5% og árið 2009 var það 33,8%. Merkel verður því kanslari næstu fjögur árin en hún hefur þegar gegnt embættinu í tólf ár.

Nýr valkostur fyrir Þýskaland, AfD, er samkvæmt þessu þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu. AfD verður því fyrsti þjóðernisflokkurinn sem fær sæti á þýska sambandsþinginu frá árinu 1945. 

Alexander Gauland og Alice Weidal fóru fyrir þingmannsefnum AfD í kosningabaráttunni og þau segja að flokkurinn stefni hærra en að verða stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Weidal sagði í viðtali við dagblaðið Frankfurter Rundschau að eftir eitt kjörtímabil á þinginu ætti flokkurinn að vera nógu öflugur til að geta komist til valda árið 2021.

Þingmannsefni flokksins hafa lagt áherslu á andstöðu sína við fjölgun innflytjenda frá löndum múslíma. „Íslam á ekki heima í Þýskalandi,“ sagði Gauland á blaðamannafundi í Berlín nýverið. Hann bætti við að pólitískar kenningar íslams væru „ekki samrýmanlegar frjálsu landi“. „Orðagjálfur, ofbeldi og hryðjuverk íslamista eiga rætur í Kóraninum og kenningum íslams.“

Stoltur af „afrekum þýskra hermanna“

Gauland sagði nýlega að Þjóðverjar ættu að vera stoltir af þýskum hermönnum sem börðust í heimsstyrjöldunum tveimur. „Ef Frakkar geta verið stoltir af keisara sínum (Napóleon) og Bretar af (Horatio) Nelson og (Winston) Churchill þá ættum við að hafa rétt til að vera stolt af afrekum þýskra hermanna í heimsstyrjöldunum,“ sagði Gauland.

Andstæðingar hans sögðu ummælin sýna að AfD væri „öfgaflokkur“ og bentu m.a. á að Þjóðverjar gætu ekki verið stoltir af fjöldamorðum á gyðingum.

Jafnaðarmenn hafa þegar lýst því yfir að þeir muni frekar vera í stjórnarandstöðu heldur en að mynda bandalag með flokki Merkel. Bæði þingflokksformaðurinn, Thomas Oppermann, og varaformaður flokksins, Manuela Schewesig, eru sammála um að flokkurinn eigi heima í stjórnarandstöðu ef þetta verða úrslitin. Jafnaðarmenn hafa ekki fengið jafn lítið fylgi í kosningum í Þýskalandi frá stríðslokum.

Angela Merkel.
Angela Merkel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert