Sjálfsvígsárás á bílalest danskra hermanna

Danskir hermenn voru í bílalestinni en þá sakaði ekki.
Danskir hermenn voru í bílalestinni en þá sakaði ekki. AFP

Þrír almennir borgarar særðust í sjálfsvígsárás sem gerð var á bílalest hermanna Atlantshafsbandalagsins NATO í Afganistan fyrr í dag. Danskir hermenn voru í bílalestinni en þá sakaði ekki, samkvæmt upplýsingum sem AFP-fréttastofan hefur eftir dönskum yfirvöldum.

Árásin átti sér stað í Kabúl, höfuðborg Afganistan og hafa Talíbanar lýst henni á hendur sér.

Í Twitterfærslu uppreisnarmanna Talíbana er fullyrt að 16 bandarískir hermenn hafi látist eða slasast í árásinni. Um 13 þúsund hermenn er í Afganistan á vegum NATO, þar af um 8.400 bandarískir hermenn, en til stendur að fjölga þeim á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert