Bæði komin af Karli II Englandskonungi

Rose Leslie og Kit Harington.
Rose Leslie og Kit Harington. AFP

Skötuhjúin Kit Harington og Rose Leslie, sem hafa ákveðið að ganga að eiga hvort annað, eiga fleira sameiginlegt en að hafa bæði leikið í sjónvarpsþáttunum vinsælu Game of Thrones. Þau eru einnig bæði af aðalsættum sem rímar ágætlega við efni þáttanna þar sem helstu persónur eru oftar en ekki konungar, prinsar og önnur fyrirmenni.

Þannig er Harington sonur barónsins David Richard Harington sem er sá fimmtándi í röðinni frá því að barónstignin var sett á laggirnar í byrjun 17. aldar. Eldri bróðir Haringtons, John Catesby Harington sem er tveimur árum eldri, er erfingi barónstignarinnar. 

Harington er í gegnum föðurömmu sína, Lavender Cecilia Denny, afkomandi Karls II konungs Englands. Aðrir forfeður hans hafa verið fræðimenn, herforingjar og dómarar. Í gegnum föðurætt föður síns er hann kominn af skoska stjórnmálamanninum Henry Dundas, sem var fyrsti vísigreifinn af Melville.

Móðir Haringtons, Deborah Jane Harington (áður Catesby), valdi nafn hans og var hann skírður eftir enska leikritaskáldsins Christopher Marlowe en fullt nafn Haringtons er Christopher Catesby Harington. Marlowe var einnig kallaður Kit.

Faðir Rose Leslie heitir Sebastian Arbuthnot-Leslie og er höfðingi Leslie-aðalsættarinnar í Skotlandi. Fullu nafni heitir hún Rose Eleanor Arbuthnot-Leslie. Leslie var alin upp á ættaróðalinu Lickleyhead-kastala í Aberdeenskíri sem upphaflega var reist á 15. öld. Fjölskylda hennar býr í dag í Warthill-kastala sem er frá 12. öld.

Móðir hennar heitir Candida Mary Sibyl Leslie (áður Weld) og er af Fraser-aðalsættinni. Langa-langafi Leslie í gegnum móður hennar var Simon Fraser, lávarður af Lovat. Í gegnum hann er hún líkt og Harington afkomandi Karls II. Hún er einnig meðal annars komin af James Grimston, jarli af Verulam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert