Kveikt í mosku í Svíþjóð

Wikipedia

Slökkviliðsmenn í Örebro berjast nú við eld í mosku í Vivalla-hverfinu en talið er að um íkveikju sé að ræða. Tilkynnt var um eldinn klukkan 2 í nótt og fimm tímum síðar hafði ekki tekist að ráða niðurlögum hans en óttast er um stóran hluta hússins.

Varðstjóri í slökkviliðinu, Ulf Jacobsen, segir að vonast sé til þess að takist að bjarga hluta hússins en einn hluti þess er gjöreyðilagður. Í hluta tvö hafa orðið miklar reyk- og vatnsskemmdir en sá þriðji virðist hafa sloppið að mestu.

Lögreglan rannsakar málið sem íkveikju. Moskan í Örebro flutti í húsið árið 2007 en áður hafði það verið salur á vegum Votta Jehóva. Um fimm þúsund manns sækja moskuna í hverjum mánuði og eru gestir af fjölmörgum þjóðernum.

Árið 2004 kastaði einhver flösku með eldfimu efni í gegnum rúðu súnní-moskunnar en ekki urðu miklar skemmdir af hennar völdum. Í skýrslu lögreglunnar frá því fyrr á árinu var Vivalla-hverfið álitið eitt af 23 sérstaklega viðkvæmum svæðum í Svíþjóð. Það þýðir að glæpatíðni er há í hverfinu.

SVT

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert