Spangólaði og gaf frá sér óskiljanleg hljóð

Otto Warmbier í febrúar í fyrra.
Otto Warmbier í febrúar í fyrra. AFP

Foreldrar Otto Warmbier, bandaríska námsmannsins sem lést skömmu eftir að hafa verið sleppt úr fangabúðum í Norður-Kóreu, sögðu að Otto hefði „spangólað og starað tómlega fram fyrir sig“ þegar hann sneri aftur til Bandaríkjanna með sjúkraflugi frá Norður-Kóreu.

Faðirinn, Fred Warmbier, sagði einnig að það hefði verið greinilegt að Otto hefði verið pyntaður. Munnurinn á honum hefði litið út eins og einhver hefði „notað töng til að endurraða tönnunum í neðri gómnum.“

Fred og eiginkona hans Cindy sögðust hafa ákveðið að ræða sögu sonar síns eftir að þau heyrðu að Norður-Kóreumenn héldu því fram að þeir væru fórnarlambið.

Frá útför Otto Warmbier.
Frá útför Otto Warmbier. AFP

„Norður-Kórea er ekki fórnarlamb,“ sagði Fred. „Þeir eru hryðjuverkamenn. Þeir rændu Otto, pyntuðu hann og meiddu vísvitandi. Þeir eru engin fórnarlömb.“

Norðurkór­esk stjórn­völd höfnuðu því að hafa misþyrmt eða pyntað Otto. Hann var hand­tek­inn og dæmd­ur til 15 ára þrælk­un­ar­vinnu í mars í fyrra þegar hann reyndi að stela vegg­spjaldi á hót­eli. 

Foreldrarnir segja að Otto hafi gefið frá sér óskiljanleg hljóð og spangólað þegar þau sáu hann aftur í júní síðastliðnum. Hann var blindur, heyrnalaus og búið að raka allt hárið af honum.

„Við vorum ekki búin að búa okkur undir þetta,“ sagði Cindy en hún og systir Otto hlupu út úr flugvélinni þegar þau sáu hann. „Ekkert foreldri ætti að þurfa að ganga í gegnum það sem við gengum í gegnum.“

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert