„Hvað gæti farið úrskeiðis?“

Nate Holland.
Nate Holland. AFP

Snjóbrettakappinn Nate Holland hefur engar áhyggjur af spennunni á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu í aðdraganda vetrarólympíuleikanna sem fara fram í Pyeongchang í Suður-Kóreu í febrúar á næsta ári.

Aðeins eru um 80 kílómetrar frá ólympíusvæðinu að hlutlausa svæðinu á milli Kóreuríkjanna, þar sem fjöldi vopnaðra hermanna er staðsettur.

Holland ætlar að bjóða eiginkonu sinni og dóttur með til Suður-Kóreu þrátt fyrir að Kim Jong-un og Donald Trump hafi skipst á miður fallegum skoðunum undanfarna mánuði.

„Við erum með Kim Jong-un og Donald Trump, tvo rólega menn sem leysa vandamál heimsins. Hvað gæti farið úrskeiðis?“ spurði Holland.

„Ég býst við því að ef eitthvað klikkar þá verðum við öll saman.“

Snjóbrettakappinn segir að hann hafi mjög gaman af því að fara til Suður-Kóreu og vilji halda því áfram. „Ég er hrifinn af matnum og ég hef mjög gaman af því að fara í karókí.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert