Skiptir líf svartra máli?

Keith Tharpe.
Keith Tharpe. Ljósmynd Georgia Department of Corrections

Hæstiréttur Bandaríkjanna frestaði óvænt aftöku svarts manns sem taka átti af lífi í Georgíu. Maðurinn var dæmdur til dauða fyrir morð.

Ákvörðun hæstaréttar kom mjög á óvart en dómarar gáfu enga skýringu á ákvörðun sinni.

Fanginn, Keith Tharpe, sem er 59 ára gamall, var dæmdur sekur um morð á mágkonu sinni, Jaquelin Freeman, árið 1990.

Tæpum mánuði fyrr hafði kona hans yfirgefið hann en sambandið hafði verið mjög stormasamt. Að morgni 25. september 1990 stöðvaði Tharpe bifreiðina sem fyrrverandi eiginkona hans var í og Freeman, eiginkona bróður hans, en þær voru á leið til vinnu.

Hann dró Freeman, sem var 29 ára gömul, út úr bílnum henti henni á jörðina og skaut hana til bana. Hann beitti síðan fyrrverandi eiginkonu sína kynferðislegu ofbeldi en ekki var gefin út ákæra um nauðgun.

Tharpe var síðan handtekinn þegar hann ók konu sinni í banka þar sem hún náði að láta lögreglu vita. Hann var dæmdur til dauða þremur mánuðum síðar.

Aftaka með banvænni sprautu er algengasta aðferðin við að taka …
Aftaka með banvænni sprautu er algengasta aðferðin við að taka fanga af lífi í Bandaríkjunum. AFP

Ákveðið hafði verið að taka Tharpe af lífi með  banvænni sprautu og átti aftakan að fara fram klukkan 19 að staðartíma, klukkan 23 í gærkvöldi. Af níu dómurum við hæstarétt greiddu þrír atkvæði gegn frestun aftökunnar. 

Er svart fólk sálarlaust?

Þegar Tharpe var dæmdur til dauða af kviðdómi í Georgíu spurði einn kviðdómenda hvort svart fólk hefði yfir höfuð sál. Allir í kviðdóminum á þeim tíma greiddu atkvæði með aftökunni.

Lögmenn Tharpe hafa að undanförnu reynt að koma í veg fyrri aftökuna á grundvelli þess að kynþáttahatur hafi leikið lykilhlutverk við ákvörðun refsingar. Eins hafa þeir bent á að það ætti að þyrma lífi Tharpe vegna andlegra veikinda hans. 

Árið 1998 tóku samtök lögmanna, sem veita föngum ókeypis lögfræðiaðstoð, viðtöl við fólkið sem sat í kviðdómi þegar dómur féll í máli Tharpe. Einn þeirra, hvítur maður að nafni Barney Gattie, sem samkvæmt skjölum réttarins sagði: það eru til tvær gerðir af svörtu fólki: 1. Svart fólk og 2. negrar (There are two types of black people: 1. Black folks and 2. Niggers).

Vissi að fjölskyldan væri góð en Tharpe ætti skilið rafmagnsstólinn

„Þar sem ég þekkti fórnarlambið og fjölskyldu eiginmanns hennar og vissi að þau væru gott svart fólk þá fannst mér að Tharpe, sem féll ekki í flokk góða svarta fólksins í mínum bókum, ætti skilið rafmagnsstólinn,“ sagði Gattie þegar hann ræddi við lögmenn um dóminn árið 1998.

Gattie sagði jafnframt að lestur hans á biblíunni hefði fengið hann til þess að efast um að svart fólk væri yfir höfuð með sál.

Gattie sagði að hann hefði ekki notað orðið negri sem móðgun þrátt fyrir að hafa skrifað undir eiðsvarna yfirlýsingu um að hann hefði sagt þetta. Saksóknarar í máli Tharpe gerðu sér grein fyrir að þetta gæti haft neikvæð áhrif á málið og fengu hann til þess að skrifa undir aðra eiðsvarna yfirlýsingu um að hann hefði verið drukkinn þegar hann lét þessi ummæli falla.

Sherrilyn Ifill,  forseti National Association for the Advancement of Colored People's Legal Defense and Educational Fund, segir að skoðanir Gatties þýði að dómgreind hans hafi ekki verið hlutlaus í máli Tharpe.

Kviðdómari sem efast um að svart fólk sé með sál er ekki fær um að dæma á heiðvirðan hátt um hvort svartur maður eins og Tharpe eigi að dæmast til dauða, segir Ifill. 

Svart fólk hættulegra en annað fólk

Í nokkrum málum á undanförnum árum hefur hæstiréttur sagt að kynþáttafordómar eigi ekki rétt á sér í bandaríska réttarkerfinu. Í febrúar frestaði hæstiréttur aftöku í Texas þar sem því hafði verið varpað fram við réttarhöldin yfir viðkomandi að hann væri mun hættulegri maður þar sem hann væri svartur. 

Í maí 2016 úrskurðaði hæstiréttur svörtum manni einnig í hag en hann hafði verið dæmdur til dauða af 12 hvítum kviðdómurum. Þegar valið var í kviðdóminn höfðu allir þeir sem komu til greina en voru svartir á hörund útilokaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert