Frá London til New York á 29 mínútum

Frumkvöðullinn og athafnamaðurinn Elon Musk hélt erindi í dag á …
Frumkvöðullinn og athafnamaðurinn Elon Musk hélt erindi í dag á alþjóðlegri ráðstefnu sérfræðinga í geimvísindum í Adelaide í Ástralíu. AFP

Áður en langt um líður mun fólk geta ferðast milli borga á örfáum mínútum með eldflaugum. Þetta fullyrðir frumkvöðullinn og athafnamaðurinn Elon Musk.

Musk, sem er meðal annars forsvarsmaður SpaceX og Tesla, hélt erindi í dag á alþjóðlegri ráðstefnu sérfræðinga í geimvísindum í Adelaide í Ástralíu.

Í metnaðarfullu kynningarmyndbandi kemur fram að eldflaugarnar muni ferðast út úr gufuhvolfinu og inn í það aftur og ná að hámarki 27 þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Þannig muni það einungis taka 24 mínútur að ferðast frá Los Angeles til Toronto og 29 mínútur að ferðast frá London til New York.

Musk fullyrðir að hægt verði að ferðast milli hvaða tveggja borga sem er í heiminum á innan við klukkutíma. Nákvæm tímasetning um hvenær ferðalög af þessu tagi verða möguleg liggur ekki fyrir, en Musk segist vera langt kominn með þróanir.

Mannaðar ferðir til Mars 

Ferðir til Mars hafa einnig verið Musk hugleiknar í langan tíma. Á ráðstefnunni kynnti hann að tvö geimför muni lenda á Mars árið 2022. Geimförin munu innihalda tæki og búnað sem eiga að undirbúa jarðveginn fyrir fleiri ferðir til plánetunnar. Tveimur árum seinna er stefnan tekin á að flytja fjögur mönnuð geimför til Mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert