Meiri líkur en minni á gosi

Agung spúir frá sér gufustrók.
Agung spúir frá sér gufustrók. AFP

Eldfjallið Agung á eyjunni Balí spýr nú frá sér gufu og brennisteinssvælu í auknum mæli. Eru menn uggandi yfir því að gos hefjist þá og þegar en 144.000 manns hafa verið fluttir frá hættusvæðum í varúðarskyni.

Agung liggur um 75 km frá túristasvæðinu Kuta og hefur verið að gera sig líklegt til að gjósa frá í ágúst. Það gaus síðast árið 1963. Þá létust um 1.600 manns.

Sést hefur til hvítra gufustróka rísa 50 til 200 metra upp frá fjallinu og sérfræðingar segja meiri líkur en minni á að gos sé yfirvofandi. Það kunni þó að breytast en vel er fylgst með gangi mála.

Almannavarnayfirvöld á eyjunni sögðu í dag að 144.389 hefðu verið fluttir á brott en fjöldinn stóð í 122.490 í gær. Flestir dvelja í 500 skýlum á 9 svæðum en sumir hafa ferðast yfir Lombok-sund til eyjarinnar Lombok.

Um 62.000 eyjarskeggjar voru búsettir á hættusvæðum áður en þau voru rýmd en íbúar í nálægðum byggðum hafa einnig flúið af ótta við gos.

Ástandið hefur enn sem komið er ekki haft áhrif á flugumferð í höfuðborginni Denpasar en nokkur ríki, t.d. Ástralía og Singapore, hafa varað ríkisborgara sína við ferðalögum til Balí.

144.000 manns hafa verið fluttir á brott frá hættusvæðum á …
144.000 manns hafa verið fluttir á brott frá hættusvæðum á Balí. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert