Segja SÞ hafa brugðist rohingjum

Rohingjar vaða flóðavatn í flóttamannabúðum í Bangladess.
Rohingjar vaða flóðavatn í flóttamannabúðum í Bangladess. AFP

Yfirmenn Sameinuðu þjóðanna reyndu að koma í veg fyrir að mannréttindi rohingja yrðu rædd við stjórnvöld í Búrma, að því er fréttavefur BBC hefur eftir heimildamönnum innan Sameinuðu þjóðanna og hjá öðrum hjálparsamtökum.

Segir heimildamaður BBC, sem er fyrrverandi embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum, að yfirmaður Sameinuðu þjóðanna í Búrma hafi reynt að hindra mannréttindasamtök í að heimsækja þau svæði rohingja þar sem ástandið er viðkvæmt.

Rúmlega 500.000 rohingjar, sem eru minnihlutahópur múslima í Rakhine-héraði, hafa flúið of­sókn­ir sem þeir hafa sætt af hönd­um hers­ins í Búrma und­an­farið. Hafa flestir þeirra leitað skjóls í Bangladess og hafa Sameinuðu þjóðirnar verið áberandi í hópi viðbragðsaðila, m.a. með því að veita hjálpargögn og fordæma aðgerðir yfirvalda í Búrma.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallar meðferð stjórnvalda í Mjanmar á róhingjum mannréttinda-martröð. 

BBC segir yfirmann Sameinuðu þjóðanna í Búrma, Renötu Lok-Dessallien, hafa sl. fjögur ár áður en krísan náði hámarki reynt að stöðva för mannréttindasamtaka til svæða rohingja. Einnig hafi hún reynt að hindra opinbera umræðu um málið og einangrað það starfsfólk Sameinuðu þjóðanna sem reyndi að vara við því að hætta væri á þjóðernishreinsunum.

Einn þessara starfamanna er Caroline Vandenabeele. Hún starfaði í Rúanda á árunum fyrir þjóðernishreinsanirnar þar í landi á tíunda áratug síðustu aldar og varð vör við sambærileg atvik er hún fyrst kom til Búrma.

„Ég var með hópi Búrmabúa sem búa utan heimalandsins og með búrmískum kaupsýslumönnum sem voru að ræða um Rakhine og rohingja. Einn þeirra sagði: „við ættum bara að drepa þá alla eins og þeir væru hundar.“ Slíkt svipting mannlegra eiginleika er ein táknmynd þess að þetta hafi náð því samþykki samfélagsins að þykja eðlilegt,“ sagði Vandenabeele.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert