Kanna möguleikann á viðræðum við N-Kóreu

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Xi Jinping, forseti Kína.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru í „beinum tengslum“ við ráðamenn í Norður-Kóreu að því er BBC hefur eftir Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Sagði Tillerson bandarísk stjórnvöld vera að „þreifa fyrir sér“ með möguleikann á viðræðum við Norður-Kóreu. „Við erum með samskiptalínur við [ráðamenn í]  Pyongyang,“ sagði Tillerson sem er í heimsókn í Kína. „Við erum ekki í algjöru myrkri“.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu undan farið og hafa Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, skipst á að ausa fúkyrðum og hótunum yfir hvorn annan.

Trump hefur t.a.m. hótað Norður-Kóreu gjöreyðingu og sagt Kim vera í sjálfsvígshugleiðingum á meðan Kim hefur hótað að temja hinn andlega vanheila öldung með eldi. Þeirri orðræðu var haldið áfram í dag er Kim kallaði Trump „gamlan geðsjúkling“ sem væri harðákveðin í þeirri „sjálfsvígsvegferð að bjóða heim kjarnorkuhörmungum sem muni kaffæra Bandaríkin í eldhafi.“

Tillerson sem fundar nú í Kína með Xi Jingping, forseta Kína, vonast til að fá Kínverja til að koma á þeim viðskiptaþvingunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt gegn Norður-Kóreu. Fyrr í þessari viku tilkynntu kínverskir ráðamenn að þeir hygðust loka norður-kóreskum fyrirtækjum í landinu, þeir hafa engu að síður einnig talað fyrir viðræðum við Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert